Sport

Ís­lands­metið aldrei tak­markið: „Kem þarna í mark og er í raun grátandi“

Oddur Ævar Gunnarsson og Stefán Árni Pálsson skrifa
Þorleifur var eðli málsins samkvæmt vankaður eftir að hafa bætt Íslandsmetið.
Þorleifur var eðli málsins samkvæmt vankaður eftir að hafa bætt Íslandsmetið. Þorleifur Þorleifsson

Þor­leifur Þor­leifs­son, nýr Ís­lands­met­hafi í bak­garðs­hlaupi eftir 50 hringi og 335 kíló­metra hlaup í Ret­tert í Þýska­landi, segir Ís­lands­metið aldrei hafa verið mark­miðið. Hringir 47 og 48 hafi verið þeir erfiðustu.

„Það er erfitt að lýsa til­finningunni þegar ég hætti ná­kvæm­lega,“ segir Þor­leifur í sam­tali við frétta­stofu. Í bak­garðs­hlaupi er tæp­lega sjö kíló­metra hringur farinn á klukku­tíma fresti þar til að­eins einn hlaupari stendur eftir. Um­rætt hlaup í Ret­tert er það næst­stærsta í heiminum og koma þar saman öflugustu bak­garðs­hlauparar heims.

50 hringir og 335 kíló­metrar er nýtt Ís­lands­met. Gamla metið átti Mari Järsk; 43 hringi. Bæði voru skráð til þátt­töku í Bak­garðs­hlaupi meistarana í Ret­tert í Þýska­landi. Mari lauk keppni eftir 34 hringi, eftir að hún varð veik og átti erfitt að koma niður mat. 

Erfitt þegar tveir sólar­hringir voru liðnir

„Mér leið vel í gegnum allt hlaupið alveg þangað til að ég var að klára hring 47, þá fyrst var þetta farið að vera mjög erfitt og þá sér­stak­lega and­lega,“ segir Þor­leifur.

Hann hafi vitað að hann ætti einungis tvo hringi eftir til þess að vera búinn að hlaupa í tvo sólar­hringi. Þor­leifur var eðli málsins sam­kvæmt enn vankaður eftir hlaupið þegar frétta­stofa náði af honum tali.

„Þannig að ég man ekki ná­kvæm­lega hvernig þetta var en ég man að ég kem þarna í mark á þessum hring og er í raun grátandi og lítill í mér. Teymið mitt hjálpaði mér og kom mér út aftur, sem var mjög erfitt.“

Þor­leifur segir að þegar komið hafi verið á hring 50 hafi honum liðið vel and­lega, en líkaminn hins vegar hafi verið búinn. „Líkaminn var orðinn mjög lúinn og ég finn að ég er ekki að fara að klára á tíma. Það slökknaði bara á mér og stelpurnar taka allar á móti mér og mér leið mjög vel á þessum tíma­punkti, þó ég væri al­gjör­lega búinn á því.“

Hafði mikla trú á að ná að bæta Ís­lands­metið

Þor­leifur segir spurður að Ís­lands­metið hafi ekki verið eigin­legt mark­mið, þó hann sé hreykinn af árangrinum.

„Mark­miðið mitt var alltaf að bæta minn árangur, auð­vitað vildi ég reyna við Ís­lands­metið en mark­miðið númer eitt var að klára tvo sólar­hringa, 48 tíma.“

Þá hafi næsta mark­mið Þor­leifs verið að ná 50 klukku­stunda hlaupi, sem tókst. „Ég hafði mjög mikla trú á að ég myndi ná Ís­lands­metinu, en svo var þetta bara spurning hversu mikið lengra er ég að fara? Er ég að fara 45 hringi, sem eru 300 kíló­metrar? Er ég að fara í 48 hringi sem eru þá tveir sólar­hringar, eða 60 hringi?“

Hitinn erfiður

Mikill hiti var í Þýska­landi og segir Þor­leifur það hafa gert hlaupið erfiðara en ella. And­legi þátturinn sé hins vegar það sem mestu máli skipti að hafa í lagi í slíku hlaupi.

„Það er erfitt að lýsa þessu en þetta var eigin­lega aldrei mjög erfitt líkam­lega. Auð­vitað er maður alltaf þreyttur og mjög illt hér og þar en það er and­legi hlutinn sem er alltaf að fara upp og niður.“

Þor­leifur bætir því við að maginn skipti hins vegar að sama skapi gríðar­legu máli. Líðan hans í maganum hafi verið upp og niður en hitinn hafi haft sitt að segja.

„Hitinn var mjög erfiður. Á sunnu­deginum þá var ég alveg að drepast. Þá fer ég í hlaupa­vestið og fylli alla vasa af klaka og þá næ ég að kólna og halda kulda til þess að reyna að klára hringinn. Hæðar­munurinn í hlaupinu og hitinn voru erfiðastir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×