Erlent

Allar líkur á annarri um­ferð í for­seta­kosningunum í Tyrk­landi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fylgi Erdogan í fyrri umferð kosninganna hefur komið mörgum á óvart.
Fylgi Erdogan í fyrri umferð kosninganna hefur komið mörgum á óvart. AP/Amrah Gurel

Mestar líkur virðast nú vera á því að önnur umferð muni fara fram í forsetakosningunum í Tyrklandi, þar sem kosið verður á milli tveggja efstu frambjóðandanna.

Eftir 20 ár á valdastólum var Recep Teyyip Erdogan sigurviss í ræðu sinni til stuðningsmanna í nótt og sagðist fullviss um að ná meirihluta atkvæða og tryggja sér embættið. Helsti mótframbjóðandi hans, Kemal Kilicdaroglu, segir hinsvegar ljóst að hann verði með pálmann í höndunum þegar yfir lýkur. 

Enn á eftir að telja um 10 prósent atkvæða og Erdogan er aðeins með 49,4 prósent atkvæða en Kilicdaroglu kemur næstur með 44,79 prósent. Þriðji frambjóðandinn, sem mun heltast úr lestinni fyrir aðra umferð, er svo með rúm fimm prósent atkvæða. 

Erdogan hefur verið nær einráður í Tyrklandi um árabil en síðustu misseri hefur hallað undan fæti. Verðbólgan mælist nú um 45 prósent og efnahagsaðgerðir forsetans hafa verið harðlega gagnrýndar. 

Þá var Erdogan einnig gagnrýndur fyrir lélegt viðbragð ríkisins við jarðskjálftunum í febrúar, þar sem rúmlega fimmtíu þúsund manns fórust. Því bjuggust margir við því að forsetinn myndi tapa kosningunum nú og kemur sumur sérfræðingum nokkuð á óvart hversu mikið fylgi Erdogan fékk í fyrri umferðinni.

Síðari umferð forsetakosninganna mun fara fram 28. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir

Bilið milli Erdogan og Kilicdaroglu minnkar

Munurinn milli forsetaframbjóðenda í Tyrklandi hefur minnkað síðan fyrstu tölur bárust í kvöld. Enginn frambjóðandi er með yfir helming atkvæða eins og stendur. Endi kosningarnar þannig þarf að ganga aftur til kosninga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×