Erlent

Sprengdu Stars­hip eftir bilun í að­skilnaðar­búnaði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Starship gæti farið út í geim í dag.
Starship gæti farið út í geim í dag. Getty/Jonathan Newton

Fyrirtækið SpaceX mun reyna aftur í dag að koma stærstu eldflaug sögunnar út í geim. Stefnt er að því að skjóta flauginni klukkan hálf tvö í dag. 

Uppfært kl 13:43: Það tókst að koma flauginni á loft en ekki tókst að aðskilja farið frá eldflauginni sjálfri. Ekki er víst hvort SpaceX hafi sprengt hana viljandi eftir að það mistókst eða ekki. Það virðist sem svo að þeir hafi gert það viljandi til að koma í veg fyrir að flaugin myndi falla til jarðar og springa þar.

Geimskipið átti að losna frá eldflauginni og þjóta áfram út í geim. Eldflaugin átti að snúa við og lenda í sjónum. Aðskilnaðurinn átti sér ekki stað en eldflaugin virtist þrátt fyrir það vera að reyna að snúa við, áður en bæði eldflaugin og geimskipið sprungu í loft upp.

Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð mjög hratt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar.

Flaugin er hluti af þróun SpaceX á fullkomlega endurnýtanlegri eldflaug. Með því er hægt að draga verulega úr kostnaði við geimskot og því framkvæma þau mun oftar en ella. 

Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð mjög hratt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar. Stæðan er um 120 metra há. Super Heavy eldflaugin er búin 33 Raptor hreyflum sem brenna metan og fljótandi súrefni.

Upphaflega átti að skjóta henni út í geim á mánudaginn í þessari viku en vegna vandræða með fyrsta stig kerfisins var hætt við geimskotið. 

Skotið í dag verður ákveðið tilraunaskot og hefur Elon Musk, eigandi SpaceX, sagt í viðtölum að meiri líkur séu á því að geimskotið misheppnist en ekki. Markmið starfsmanna SpaceX er því að læra eins mikið og mögulegt er af tilraunaskotinu, hvort sem það heppnast eða ekki.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá á 44:53 þegar flaugin fer af stað. Hún springur svo á 49:03.

Eldflaugin á að snúa aftur til jarðar og stendur til að reyna að lenda henni, ef svo má segja, um þrjátíu kílómetra frá ströndum Texas-ríkis. Starship geimfarið mun hins vegar fara hring um jörðina í allt að 235 kílómetra hæð og á að falla í hafið norður af Havaí um níutíu mínútum eftir geimskotið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×