Erlent

Sund­laugar ríka fólksins mikil um­hverfis­ógn

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Dæmi eru um að ríkustu 14 prósentin noti meira en helming neysluvatns í borgum.
Dæmi eru um að ríkustu 14 prósentin noti meira en helming neysluvatns í borgum. EPA

Ríkt fólk notar um fimmtíu sinnum meira vatn en fátækt fólk. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna við Reading háskóla í Bretlandi. Vatnsnotkun ríka fólksins hefur verið alvarlega vanmetin umhverfisógn.

Rannsóknin, sem birt var í tímaritinu Nature Sustainability, var framkvæmd í borginni Höfðaborg í Suður Afríku. Ríkt fólk þar notar mikið vatn, meðal annars í sundlaugar sínar, til að vökva stóra garða og halda drossíum sínum glansandi fínum.

Alls notuðu ríkustu 14 prósent íbúanna í Höfðaborg 51 prósent af vatninu. Stærstur hluti vatnsins fór í ónauðsynlega hluti. Fátækustu 62 prósentin notuðu hins vegar aðeins 27 prósent.

Í rannsókninni kom fram að þegar mikill vatnsskortur varð í borginni árið 2018 var það fátækasta fólkið sem þurfti að vera án vatns.

Vatnsskortur í stórborgum

Höfðaborg er ekki eina borgin sem hefur glímt við vatnsskort. Hann hefur komið upp tímabundið í London, Barcelona, Beijing, Miami og víðar á undanförnum árum. Búist er við því að tilfellunum fjölgi á komandi árum.

„Loftslagsbreytingar og fólksfjölgun þýða að vatn er að verða dýrmætari auðlind í stórborgum. Við sýnum fram á að félagslegt óréttlæti er stærsta vandamálið fyrir fátækt fólk sem þarf aðgang að neysluvatni fyrir daglegt líf,“ segir Hannah Cloke, prófessor við Reading háskóla og einn af rannsakendum, við breska blaðið The Guardian.

Hún segir það nauðsynlegt að hanna sanngjarnari leiðir til þess að dreifa vatni til allra íbúa. Bæði fátækir og ríkir myndu græða á því, því að í borgum þar sem vatni er dreift ójafnt er vatnsöflun lélegri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×