Mótið í gær var í umsjá fimleikadeildar Fjölnis og fór fjölþrautarkeppnin fram í gær en í dag verður keppt til úrslita á einstökum áhöldum.
Hart var barist í kvennaflokki en þar var það Thelma Aðalsteinsdóttir sem náði að verja titil sinn síðan í fyrra en hún hlaut í heildina 48.400 stig. Thelma keppir fyrir hönd Gerplu. Í öðru sæti voru þær Margrét Lea Kristinsdóttir úr Björk og Hildur Maja Guðmundsdóttir úr Gerplu en þær hlutu báðar 47.550 stig.
Þetta er annað árið í röð sem Thelma verður Íslandsmeistari í fjölþraut.
Í karlaflokki vann Valgarð nokkuð öruggan sigur með 77.065 stig. Martin Bjarni Guðmundsson úr Gerplu varð í öðru sæti með 74.565 stig og þriðji varð Atli Snær Valgeirsson einnig úr Gerplu með 74.231 stig.
Einnig var keppt í unglingaflokki og þar urðu Lúkas Ari Ragnarsson úr Björk og Lilja Katrín Gunnarsdóttir úr Gerplu meistarar en þau unnu bæði nokkuð örugga sigra.