Í greininni segja kennarar og starfsfólk við leikskólann Rauðhól, að áform borgarinnar um að ráða inn fleira starfsfólk á leikskólum séu óraunhæfar, þar sem leikskólastigið hafi vaxið langt umfram fjölgun leikskólakennara.
„Við viljum að í leikskólum starfi hæft fólk til að mæta þörfum barna sem eru jafn misjafnar og þær eru margar. Biðlistarnir eru ekki bara einhver börn á blaði, þetta eru börn með ólíkar þarfir sem eiga rétt á sérfræðiþekkingu til að mæta þeim,“ segir í greininni sem lesa má í heild sinni hér að neðan:
Bent er á að ekki séu gerðar frekari kröfur til starfsfólks en að „vera glöð, jákvæð, traust og vera tilbúin til að tileinka sér fagleg vinnubrögð.“ Starfið krefjist hins vegar sérfræðiþekkingar og lærðir kennarar hafi ekki tíma til að kenna fullorðnum líka.
„Með þessari atvinnuauglýsingu er verið að gefa í skyn að hver sem er geti unnið vinnuna sem við höfum sérhæft okkur í. Til hvers að fara í 5 ára háskólanám þegar þetta er viðhorfið?“
Orð Ragnhildar Öldu, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún stingur upp á foreldrareknum leikskólum eru einnig gagnrýnd.
Skiptir engu máli hverjir sinna þessu starfi? Eiga börnin bara að fá pláss einhvers staðar hjá einhverjum? Hvar er virðingin fyrir kennurum, náminu og menntun yngstu barnanna? Það er kannski bara vonlaust að þjóðfélagið líti á okkur sem menntastofnun og beri virðingu fyrir okkar starfi þegar þetta er viðhorfið.

Sjónarmið atvinnulífs og foreldra
Undirritaðir kennarar krefjast því umbóta með því að hægja á stækkun leikskólakerfisins, lengja fæðingarorlof og auka við nýliðun kennara. Barnamálaráðherra hefur lýst yfir vilja til að lengja fæðingarorlof enn frekar.
„Það að skapa fleiri pláss leysir engan vanda þegar að langflestir leikskólar eiga nú þegar í mönnunarvanda að stríða. Þegar nýir leikskólar opnast færist svo mönnunarvandinn á milli leikskóla þegar fólk færir sig til í starfi,“ segir í greininni og bent á að margir leikskólakennarar færi sig í grunnskóla þegar 5 ára deildir opna í sama hverfi, vegna betri kjara og minna álags.
Þá segir að umræða um leiskólavanda hafi einungis farið fram á forsendum atvinnulífs og foreldra.
Hver er að huga að hagsmunum þeirra sem verja dögunum innan veggja leikskólans? Starfsfólk og börn þurfa að fá rödd og þeirra skoðun þarf að vera tekin inn í þessa umræðu. Því hvað er leikskóli án leikskólakennara? Það þarf að huga að innviðum leikskólans, sem er starfsfólkið, starfsfólkið sem fær það allra dýrmætasta sem foreldrar eiga í hendurnar á morgnana. Við þurfum að fá rými til þess að sinna starfinu okkar,“ segir í greininni sem lesa má í heild sinni hér.