Skoðun

Leikskólavandinn?

Hópur leikskólakennara og starfsfólks leikskóla í Reykjavík skrifar

Það þarf að leysa vanda leikskólanna áður en leikskólavandi borgarinnar, eins og hann er kallaður, verður leystur. Fulltrúar borgarinnar í fjölmiðlum eru að reyna að svara mótmælum frá foreldrum og atvinnulífi en gleyma að líta inn á leikskólana sjálfa og sjá raunverulega vandann sem er jú þeirra að leysa.

Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson nefnir í viðtali þann 16. mars 2023 að Reykjavík standi sig betur en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu í leikskólamálum. Það sem skilji okkur frá öðrum er að við séum með raunverulegar áætlanir meðal annars að 600 ný leikskólapláss hafi bæst við með nýjum leikskólum, hann talar um fjármuni til að ráða fleira starfsfólk. Starfsfólk sem er ekki til, þar sem að leikskólastigið hefur vaxið langt umfram fjölgun leikskólakennara. Við viljum að í leikskólum starfi hæft fólk til að mæta þörfum barna sem eru jafn misjafnar og þær eru margar. Biðlistarnir eru ekki bara einhver börn á blaði, þetta eru börn með ólíkar þarfir sem eiga rétt á sérfræðiþekkingu til að mæta þeim.

Til þess að mega kalla sig kennara þarf að ljúka 5 ára háskólanámi. Sérfræðinám um leik, þroska og nám ungra barna. Á vef Reykjavíkurborgar er auglýst eftir fyrirmyndum og ekki gerðar frekari kröfur fyrir fólk að koma vinna í leikskólum, annað en að vera „glöð, jákvæð, traust og vera tilbúin til að tileinka sér fagleg vinnubrögð. Íslenskukunnátta er mikilvæg, en það er líka engin betri staður til að læra tungumálið en í leikskólanum!“

Að miðla fagmennsku og tungumálinu á samkvæmt þessu að vera í höndum leikskólakennarana, í leikskóla þar sem börn eru sjálf að læra á lífið, læra tungumálið og eru á viðkvæmu máltökuskeiði, mörg börn sem þurfa málörvun og annan stuðning sem krefst sérfræðiþekkingar. Við höfum bara ekki tíma til að kenna fullorðnum líka. Með þessari atvinnuauglýsingu er verið að gefa í skyn að hver sem er geti unnið vinnuna sem við höfum sérhæft okkur í. Til hvers að fara í 5 ára háskólanám þegar þetta er viðhorfið?

Í viðtali á mbl.is þann 15. mars sagði Árelía Eydís, formaður skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar: „Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta við plássum og hugsum í fjölbreyttum lausnum“. Árelía virðist skilja vandann sem við erum í og það kom einnig fram í Kastljósi þann 20. mars þar sem hún lýsti yfir áhyggjum sínum. Þar var Ragnhildur Alda einnig sem kom fram með innlegg Sjálfstæðisflokksins, þar sem að þetta hljómaði frekar einfalt „allir ættu að geta komið að borðinu og hjálpað okkur að leysa vandann, til dæmis með foreldrareknum leikskólum, starfsmannafélög sem gætu komið á fót einhverjum leikskólum og að fjölga grunnskólum sem taka inn 5 ára börn”.

Skiptir engu máli hverjir sinna þessu starfi? Eiga börnin bara að fá pláss einhvers staðar hjá einhverjum? Hvar er virðingin fyrir kennurum, náminu og menntun yngstu barnanna? Það er kannski bara vonlaust að þjóðfélagið líti á okkur sem menntastofnun og beri virðingu fyrir okkar starfi þegar þetta er viðhorfið. Staðreyndin er samt sú að leikskólinn er fyrsta skólastigið samkvæmt lögum þó að það sé ekki skylda.

Við viljum stíga skref til baka, hægja á stækkun leikskólakerfisins, lengja fæðingarorlof og auka nýliðun leikskólakennara. Það að skapa fleiri pláss leysir engan vanda þegar að langflestir leikskólar eiga nú þegar í mönnunarvanda að stríða. Þegar nýir leikskólar opnast færist svo mönnunarvandinn á milli leikskóla þegar fólk færir sig til í starfi. Að opna 5 ára deildir í skólum ýtir ennþá fleiri kennurum úr leikskólum yfir í grunnskóla en við höfum misst alltof mikið af fólki yfir því þar eru betri kjör, meiri möguleiki á yfirvinnu og almennt betra vinnuumhverfi í mun minna áreiti. Við megum ekki við því að missa fleiri heldur verðum við að berjast fyrir bættu starfsumhverfi í leikskólunum sjálfum.

Starfsfólk í nýja leikskóla er ekki til og það er vanvirðing við leikskóla sem menntastofnun að kasta fram hugmyndum líkt og Ragnhildur Alda gerði í Kastljósi.

Öll umræða sem hefur átt sér stað undanfarið er á forsendum atvinnulífsins og foreldra. Hver er að huga að hagsmunum þeirra sem verja dögunum innan veggja leikskólans? Starfsfólk og börn þurfa að fá rödd og þeirra skoðun þarf að vera tekin inn í þessa umræðu. Því hvað er leikskóli án leikskólakennara? Það þarf að huga að innviðum leikskólans, sem er starfsfólkið, starfsfólkið sem fær það allra dýrmætasta sem foreldrar eiga í hendurnar á morgnana. Við þurfum að fá rými til þess að sinna starfinu okkar. Við viljum leggja áherslu á mikilvægi þess að yngstu börnum verði bæði fækkað inn á deildum og einnig á hvern kennara → færri börn á hverri deild. Hljóðáreitið sem er inn á deild veldur mikilli streitu hjá bæði börnum og starfsfólki. Við viljum bjóða starfsfólki og börnunum okkar upp á besta umhverfið sem völ er á. Eins og staðan er í dag er það ekki að takast.

Samningar leikskólakennara losna 31. mars og við teljum að þar eigi að byrja á því að koma leikskólastiginu á þann stall sem það á heima. Jöfnun launa á milli markaða er mjög nauðsynleg byrjun sem verður að fara markvisst og skipulega í. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna að laun sérfræðinga í fræðslustarfsemi eru umtalsvert lægri en laun annarra hópa sérfræðinga. Sérstaklega á það við þegar samanburðurinn er gerður við laun sérfræðinga á almennum markaði. Þetta þarf að laga.

Eins og sjá má er vandi leikskólanna margþættur og ætti borgin að forgangsraða að skapa því fólki sem nú þegar starfar í leikskólum vinnuumhverfi við hæfi áður en allt það fólk fer annað.

Höfundar eru leikskólakennarar, nemar í leikskólakennarafræðum, þroskaþjálfar og annað starfsfólk í leikskólanum Rauðhól sem er handhafi Íslensku menntaverðlaunanna 2022.

Aldís Björk Óskarsdóttir

Alida Jakobsdóttir

Andrea Stefánsdóttir

Arletta Kuźniewska

Bentína Þórðardóttir

Birta Ethel Guðbjartsdóttir

Bjarney Ingimarsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dóra Jóna Barkardóttir

Edda Lydia Þorsteindóttir

Elín Arna Tryggvadóttir

Elsa Björk Einarsdóttir

Eva Þórunn Kristinsdóttir

Eydís Einarsdóttir

Guðlaug Erla Jóhannsdóttir

Heiðar Ingi Árnason

Hildur Björg Eyjólfsdóttir

Hrefna Ólafsdóttir

Inga Ævarsdóttir

Ingibjörg Jónasdóttir

Jónína Guðrún Reynisdóttir

Katrín María Ágústsdóttir

Kristín Þóra Helgadóttir

Lena Ýr Sveinbjörnsdóttir

Magnea Arnardóttir

Margrét Gígja Rafnsdóttir

Sandra Valsdóttir

Sigríður Sigurjónsdóttir

Sigrún Axelsdóttir

Sólveig Ólafsdóttir

Una Þorgilsdóttir

Unnur Gylfadóttir

Zsuzsanna Oláhné Szentimrey



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×