Hægt er að horfa á þáttinn í spilaranum hér að neðan:
Ekki fallegar sögur sem enda vel
Heimur trölla, álfa, drauga og annarra kynjavera opnast á einstakan hátt á sýningunni þar sem þjóðsögur leika stórt hlutverk en Sigga Björg er óhrædd við að nálgast óhugnanleg viðfangsefni og segist ekki vilja fegra hlutina.
„Ég vil frekar bara segja söguna bara eins og hún er. Þessar sögur sem ég er að fjalla um eru ekkert endilega fallegar með góðum enda. Þess vegna höfðaði það svo til mín.
Mér hefur alltaf fundist mikilvægt að fjalla um allan skalann af mannlegum tilfinningum og þá er ekkert hægt að fegra það. Þetta er svo breiður skali.“
Persónulegir en óræðir hlutir
Aðspurð hvort verkin endurspegli einhvern hluta af hennar sálarlífi svarar Sigga Björg því játandi og brosir.
„Í þessari seríu er ég kannski svolítið að fela mig á bak við sögur. Ég er að vinna út frá sögum sem annar sagði, venjulega endurspegla verkin jafnvel mjög persónulega hluti en ég er ekki að segja það beint út.
Ég hef ekkert rosalega mikinn áhuga á því að vera að segja alla söguna, því mér finnst svo mikilvægt að ná þessu augnabliki og þessari tilfinningu sem ég teikna myndina út frá.“

Tekur ákvarðanir með augunum og maganum
Siggu Björgu finnst mikilvægt að hver og einn fái rými til að upplifa verkið á sinn eigin hátt.
„Ég nota ekki mikið af andlitum og svipbrigðum því það segir svo mikið um hvað er að gerast í myndinni. Ég hef áhuga á líkamstjáningu, hvernig við tjáum okkur hvort við annað og slíku. Oftast þá vinn ég í rosa miklum vinnutörnum, þannig ég er ekki vinna mjög meðvitað.
Ég er að taka ákvarðanir með augunum og maganum frekar en að ég sé að ákveða fyrir fram hvernig myndin á að líta út.
Mér líður eins og ég sé að reyna að komast að einhverju með þessari vinnuaðferð, um okkur mannfólkið, tilfinningar, samskipti, skrýtin hegðunarmynstur og fleira.“
Þættirnir KÚNST með Dóru Júlíu rannsaka hinar ýmsu víddir listsköpunar, ólíka listmiðla og sköpunargleði hjá íslenskum samtíma listamönnum ásamt því að fá að skyggnast bak við tjöldin og heyra um persónulegt líf þeirra.