Innlent

Gera ráð fyrir þjóðar­höll í deili­skipu­lags­breytingu

Máni Snær Þorláksson skrifar
Umrædd þjóðarhöll á að rísa á svæðinu í kringum Laugardalshöllina.
Umrædd þjóðarhöll á að rísa á svæðinu í kringum Laugardalshöllina. Vísir/Vilhelm

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir Laugardal. Breytingin felur í sér rými fyrir þjóðarhöll en hámarks byggingarmagn hallarinnar er nítján þúsund fermetrar. 

Í breytingunni sem lögð er til felst að lóð og byggingarreitur Laugardalshallar stækki og að innan reitsins sé gert ráð fyrir þjóðarhöll fyrir innanhúsíþróttir og viðburði. Önnur lóð minnkar í breytingunni og er þá framlengdur Vegmúli í Laugardal og lóð fyrir bílakhallara sunnan byggingar ÍSÍ og ÍBR felld úr skipulaginu. 

Fram kemur í tilkynningu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að umrædd þjóðarhöll eigi að verða áberandi í umhverfi Laugardalsins. Áhersla verði lögð á vandaða byggingarlist og hönnun byggingarinnar á að fara í gegnum viðurkennt umhverfisvottunarferli.

Skjáskot úr deiliskipulaginu.Landslag

Gert er ráð fyrir því að aðalgólf Laugardalshallar, frjálsíþróttahallar og þjóðarhallar verði öll í sömu hæð. Vegna aðstæðna í landi mun Þjóðarhöllin því grafast að hluta til inn í hæðarmun frá Laugardalshöll upp að samgöngustíg.

Byggt yfir 140 bílastæði

Tekið  er fram í tilkynningunni að mikilvægt sé að horfa til væntanlegrar borgarlínustöðvar á Suðurlandsbraut þegar staðsetning aðalinnganga verður ákveðin.  

„Sérstaklega skal huga að leiðum frá fyrirhugaðri borgarlínustöð á Suðurlandsbraut bæði að nýrri Þjóðarhöll og öðru aðdráttarafli í Laugardal. Aðkomuleiðir að þjóðarhöllinni verða greiðar fyrir gangandi frá borgarlínustöð og aðgengilegar öllum,“ segir í tilkynningunni.

Byggingarreitur þjóðarhallar fer yfir alls 140 bílastæði sem staðsett eru á svæðinu. Fram kemur að ekki sé gert ráð fyrir að bæta þau stæði upp með nýjum stæðum annars staðar á lóðinni.

„Fellur það að hugmyndum um að draga úr bílaumferð í Laugardal og leggja auknar áherslur á vistvæna samgöngumáta. Borgarlínustöðin gegnir þar lykilhlutverki.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×