Innlent

„Auðvitað viljum við ekki hafa húsnæðið af fólki að óþörfu“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasvið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnasvið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Egill

Sviðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins býst við frekari lokunum á atvinnuhúsnæði sem notað er til búsetu, eftir skurk í málaflokknum í fyrra. Aðeins um helmingur þeirra sem krafðir voru um úrbætur á brunavörnum hafa svarað. Málin séu erfið viðureignar; slökkviliðið vilji ekki hafa húsnæði af fólki að óþörfu.

Eldsvoði varð í atvinnuhúsnæði að Vatnagörðum 18 á föstudag, þar sem áfangaheimilið Betra líf er rekið og þrjátíu manns bjuggu. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins gerði þar úttekt á brunavörnum 8. febrúar, níu dögum fyrir brunann.

Niðurstöðurnar mála upp svarta mynd. Slökkviliðsstjóri varar við yfirvofandi lokun húsnæðisins, verulegir annmarkar sagðir á eldvörnum og um að ræða alvarleg brot á lögum um brunavarnir.

„Ég held það sé ekki hægt að segja annað en að þarna séu alvarlegir ágallar. Hvort það sé betra eða verra en á öðrum stöðum það er kannski erfitt að segja. Það verður bara að skoða hvert mál fyrir sig,“ Aldís Rún Lárusdóttir, sviðsstjóri forvarnarsviðs slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Búseta í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var rækilega kortlögð í fyrra. Í 35 tilvikum voru eigendur krafðir um úrbætur á brunavörnum og þar af hefur um helmingur brugðist við.

„Flestir eigendur hyggjast koma sínum brunavörnum í lag, það er auðvitað miserfitt eftir aðstæðum en eftir standa önnur heimilisföng þar sem við höfum ekki fengið nein viðbrögð. Og þar má búast við aðgerðum. Og í einhverjum tilfellum endar það í lokunarmálum, kannski,“ segir Aldís.

„Þetta er erfitt viðureignar því auðvitað viljum við ekki hafa húsnæðið af fólki að óþörfu. Þess vegna höfum við miðað okkar afskipti við það húsnæði þar sem við teljum öryggi fólks ógnað ef upp kemur eldur. Við erum ekkert að leitast við að loka húsnæði bara til þess að loka af því að notkunin er ólögleg. Við erum fyrst og fremst að horfa á að öryggi fólks sé tryggt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×