Sport

Sviss­neskur sigur í bruni karla og franskt gull í skíða­skot­fimi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Svissneska liðið fagnar sigrinum í dag.
Svissneska liðið fagnar sigrinum í dag. Vísir/Getty

Marco Odermatt fór með sigur af hólmi í bruni karla á heimsmeistaramótinu í alpagreinum sem nú fer fram í Frakklandi. Þá vann Julia Simon sigur í eltigöngu kvenna á heimsmeistaramótinu í skíðaskotfimi.

Heimsmeistaramótið í alpagreinum er nú í fullum gangi í Courchevel í Frakklandi og í morgun var komið að bruni karla en brun er hraðasta alpagreinin sem keppt er í öllu jafna.

Það var Svisslendingurinn Marco Odermatt sem fagnaði sigri í keppninni í dag en hann náði gullinu á undan Norðmanninum Al­eks­and­er Aamodt Kilde sem endaði í öðru sæti tæpri hálfri sekúndu á eftir Odermatt.

Odermatt, Aamodt-Kilde og Alexander fagna að keppni lokinni í dag.VísirGetty

Þetta eru önnur silfurverðlaun Aamodt-Kilde á mótinu því hann fékk einnig silfurverðlaun í risasvigi en þá var hann aðeins einum hundraðshluta á eftir sigurvegaranum James Crawford frá Kanada. Cameron Alexander, landi Crawford, varð í þriðja sæti í bruninu í dag og hreppti bronsverðlaun.

Sigur Odermatt þýðir að Sviss vann tvöfalt í bruninu því Jasmine Flury vann sigur í kvennaflokki í gær. Sviss og Ítalía hafa bæði fengið tvenn gullverðlaun á mótinu sem lýkur um næstu helgi.

Franskt gull í eltigöngu

Einnig er í gangi heimsmeistaramótið í skíðaskotfimi en mótið fer fram í Oberhof í Þýskalandi. Í dag var keppt í tíu kílómetra eltigöngu kvenna en í þeirri grein eru keppendur ræstir í þeirri röð og með þeim tímamismun sem var að lokinni sprettgöngu sem fór fram á föstudag.

Þar var það hin þýska Denise Hermann-Wick sem fékk gullið og byrjaði hún því fremst í dag. Hermann-Wick var lengi vel í baráttunni um gullið í dag en í síðustu skothrinunni tók Julia Simon frá Frakklandi forystuna og lét hana ekki af hendi eftir það.

Í öðru sæti varð Hermann-Wick en Marte Olsbu Röiseland fékk bronsið. Gullverðlaun Simon eru athyglisverð í því ljósi að hún byrjaði rúmri mínútu á eftir Hermann-Wick en Simon varð í tíunda sæti í sprettgöngunni á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×