Enski boltinn

Biður leik­menn um að ein­beita sér að fót­bolta en ekki Greenwood

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mason Greenwood var handtekinn í janúar á síðasta ári grunaður um nauðgunartilraun, líkamsárás og þvingunartilburði.
Mason Greenwood var handtekinn í janúar á síðasta ári grunaður um nauðgunartilraun, líkamsárás og þvingunartilburði. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, biður leikmenn liðsins um að einbeita sér að fótbolta frekar en Mason Greenwod eftir að ákæra á hendur leikmanninum var látin niður falla í gær.

Ákæra á hendur Greenwood var felld niður í gær eftir að lykilvitni í málinu dró sig til baka og ný sönnunargögn í málinu komu upp á yfirborðið. Manchester United á þó enn eftir að framkvæma sína eigin rannsókn á málinu og leikmaðurinn mun því hvorki æfa né spila með félaginu fyrr en þeirri rannsókn lýkur.

Mason Greenwood var handtekinn í janúar á síðasta ári, grunaður um nauðgunartilraun, líkamsárás og þvingunartilburði.

Aðspurður út í mál Greenwood á blaðamannafundi fyrir leik United gegn Crystal Palace á morgun hafði knattspyrnustjórinn Erik ten Hag þó lítið að segja. Hann vísaði ítrekað í yfirlýsingu félagsins og bað leikmenn liðsins um að einbeita sér að fótboltanum.

„Við þurfum alltaf að einbeita okkur að leiknum,“ sagði Ten Hag.

„Ég hef ekkert að segja. Ég get ekki bætt neinu við. Ég vísa bara á yfirlýsingu félagsins.“

Þá vildi Hollendingurinn ekkert gefa upp þegar hann var spurður að því hvort hann hafi rætt við Greenwood um framtíð hans hjá félaginu.

„Eins og ég segi þá get ég ekki tjáð mig um þetta mál á þessari stundu. Ég get ekkert sagt um þetta mál. Ég vísa aftur á yfirlýsingu félagsins og á þessari stundu get ég ekki bætt neinu við,“ sagði Ten Hag að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.