Sport

Sigurður stigameistari með fullt hús stiga

Sigurður Kristjánsson mundar kjuðann, einbeittur á svip.
Sigurður Kristjánsson mundar kjuðann, einbeittur á svip.

Sigurður Kristjánsson vann um helgina sinn fimmta titil í röð á mótaröð þeirra bestu í snóker hér á landi.

Útsláttarkeppnin fór fram á Snooker og pool stofunni en vinna þurfti 3 ramma til þess að sigra hvern leik.

Sigurður lék virkilega góðan snóker í gegnum alla sína leiki. Í 8 manna úrslitum mætti Sigurður fyrrum Íslandsmeistaranum í golfi, Þorsteini Hallgrímssyni. Þar vann Sigurður öruggan sigur sem innihélt 3 stuð yfir 60 stig. Undanúrslitaleikinn vann hann svo 3-1 gegn Ásgeiri Jóni Guðbjartssyni.

Í úrslitum mætti Sigurður Unnari Bragasyni. Leikurinn var jafn og Unnar hélt vel í við Sigurð. Sigurður innsiglaði þó góðan 3-1 sigur með glæsilegu stuði upp á 81 í úrslitaramma.

Sigurður er því stigameistari snókertímabilsins með fullt hús stiga en 5 mót telja af 6 mögulegum. Spennandi verður að sjá hvort hann landi Íslandsmeistaratitlinum einnig en það ræðst í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×