Sport

Ís­lendinga­liðunum fjölgar enn á Cross­Fit mótinu í Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson hefur sett saman liðið Team King B.K & Friends fyrir Wodapalooza CrossFit mótið í Miami.
Björgvin Karl Guðmundsson hefur sett saman liðið Team King B.K & Friends fyrir Wodapalooza CrossFit mótið í Miami. Instagram/@bk_gudmundsson

Það verður nóg um íslenska keppendur á Wodapalooza CrossFit mótinu í Miami sem hefst eftir rúma viku.

Nýjasta Íslendingaliðið á mótinu er lið Björgvins Karls Guðmundssonar en hann mætir til leiks með þeim Khan Porter og Tola Morakinyo. Wodapalooza staðfesti þátttöku þeirra á miðlum sínum og keppa þeir undir nafninu Team King B.K & Friends. Wodapalooza er fyrsta stórmót ársins í CrossFit heiminum.

Þeir Porter og Morakinyo hafa mjög sterka Íslandstengingu eftir að hafa verið í liðinu sem Anníe Mist Þórisdóttir setti saman fyrir síðustu heimsleika. Báðir eyddu þeir miklum tíma hér á landi við undirbúning sinn fyrir lið CrossFit Reykjavíkur.

Wodapalooza CrossFit mótið fer fram í blíðunni á Flórída frá 12. til 15. janúar næstkomandi. Fyrst verða tveir dagar af einstaklingskeppni á fimmtudegi og föstudegi og svo taka við tveir dagar af liðakeppninni á laugardegi og sunnudegi.

Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir keppa sama í liði og með þeim er hin unga Mallory O'Brien sem endaði í öðru sæti á síðustu heimsleikum. Rosalega öflugt lið á blaði en svo þurfa þær að ná takti saman.

Sara Sigmundsdóttir tekur líka þátt í liðakeppninni en með henni í liði verða þær Emily Rolfe og Katelin Van Zyl. Sara er stórhuga og mun líka taka þátt í einstaklingskeppninni.

Fyrsta Íslendingaliðið sem var tilkynnt á mótinu en lið Sólveigar Sigurðardóttir sem er keppir fyrir GOWOD liðið með þeim Jacqueline Dahlström frá Noregi og Emma McQuaid frá Írlandi.

Það eru fleiri mjög öflug lið á mótinu enda ákváðu stjörnur eins og Laura Horvath, Brooke Wells, Gabriela Migala, Kristi Eramo O’Connell og Amanda Barnhart allar að keppa í liðakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×