Sport

Hótaði að mæta aldrei aftur á HM og eyddi svo Instagramminu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gerwyn Price með eyrnaskjólin.
Gerwyn Price með eyrnaskjólin. getty/Pieter Verbeek

Eftir tapið fyrir Gabriel Clemens í átta manna úrslitum á HM í pílukasti hótaði Gerwyn Price að mæta aldrei aftur á mótið.

Price vann fyrsta settið í viðureigninni gegn Clemens en eftir það hallaði undan fæti hjá Walesverjanum. Hann tapaði næstu þremur settum og mætti svo með heyrnartól í fimmta settið til að reyna að útiloka hávaðann í salnum. Fjölmargir Þjóðverjar voru mættir í Alexandra höllina í London og Price lét þá fara í taugarnar á sér.

Þetta útspil Price virkaði ekki. Hann tapaði fimmta settinu, svo því sjötta og viðureigninni, 5-1. Möguleikar hans á því að vinna heimsmeistaratitilinn í annað sinn voru því úr sögunni.

Price var greinilega frekar tapsár og setti inn færslu á Instagram þar sem hann hótaði því að mæta aldrei aftur á HM.

„Svo pirrandi að spila allt árið og undirbúa sig fyrir þetta eina mót. Svo svekktur að mér var ekki leyft að spila en ég óska þeim sem eftir eru í keppninni velfernaðar. Ekki viss um að ég muni nokkurn tímann spila aftur á þessu móti,“ skrifaði Price á Instagram.

Hann eyddi síðan Instagramminu sínu og óvíst er hvort hann standi við stóru orðin og mæti aldrei aftur á HM sem er hápunktur hvers árs í pílukastinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×