Sport

Rússa­tengslin gætu kostað hnefa­leika sætið við Ólympíu­borðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá viðureign Bakhodir Jalolov frá Úsbekistan og Bandaríkjamannsins Richard Torrez Jr á síðustu Ólympíuleikum sem fóru fram í Tókýó.
Frá viðureign Bakhodir Jalolov frá Úsbekistan og Bandaríkjamannsins Richard Torrez Jr á síðustu Ólympíuleikum sem fóru fram í Tókýó. Getty/Buda Mendes

Hnefaleikar eru ein af íþróttunum sem er í hvað mestri hættu að missa sæti sitt á Ólympíuleikum í París 2024.

Alþjóða Ólympíunefndin hefur varað Alþjóða hnefaleikasambandið við að þeir þurfa á klippa á samband sitt við Rússland því annars eru örlög íþróttagreinarinnar ráðin.

Forseti Alþjóða hnefaleikasambandsins, IBA, er Rússinn Umar Kremlev og sambandið endurnýjaði nýverið samning sinn við rússneska orkufyrirtækið Gazprom sem er aðalstyrktaraðili sambandsins.

Það gerði forsetinn þrátt fyrir viðvörun frá Alþjóða Ólympíunefndinni og vitandi því hvað væri í húfi.

„Síðasta ársþing Alþjóða hnefaleikasambandsins sýnir enn á ný fram á það að IBA hefur engan alvöru áhuga á hnefaleikaíþróttinni eða hnefaleikaíþróttamönnunum sjálfum heldur hefur sambandið aðeins áhuga á eigin völdum,“ sagði talsmaður Alþjóða Ólympíunefndarinnar.

Alþjóða Ólympíunefndin hefur varað hnefaleiksambandið við frá árinu 2019 til að slíta Rússatengslin en Umar Kremlev og stjórn sambandsins hafa ekki hlustað neitt á það.

„Alþjóða Ólympíunefndin verður að meta allar hliðar málsins þegar kemur að frekari ákvörðunartöku. Þetta mun því, eftir nýjustu fréttir, þýða að hnefaleikarnir munu mögulega missa sæti sitt á Ólympíuleikunum í París 2024,“ sagði fyrrnefndur talsmaður Alþjóða Ólympíunefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×