Viðskipti innlent

Við­skipta­f­réttir ársins 2022: Skatt­svik, klikkaður fast­eigna­markaður og úr­ræða­góðir Akur­eyringar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Viðskiptafréttir ársins á Vísi koma úr ýmsum áttum.
Viðskiptafréttir ársins á Vísi koma úr ýmsum áttum. Vísir

Árið 2022 í viðskiptalífinu einkenndist af því að í fyrsta sinn frá því snemma árs 2020 komst lífið aftur í venjubundið horft eftir tveggja ára kórónuveirufaraldur. 

Verðbólga, kreppa. Kreppuverðbólga?Aðfangaskortur, Tásur á Tene, hagvöxtur og kaupmáttur?Framboðsskortur, stýrivextir, kjaramál og niðurskurður?Ófullkomin Excel-skjöl og listin að selja banka?Innviðasala til útlanda og milljarðar til hluthafa?Fordæmalaust góðæri eða snúin staða? 

Hvert svo sem sjónarhornið er óhætt að segja að þetta hafi verið viðburðarríkt ár í viðskiptalífinu.

Í þessari yfirferð yfir viðskiptafréttir ársins á Vísi verður þó ekki lagt mat á það hvaða viðskiptafréttir á liðnu ári voru stærstar, mikilvægastar eða mest afhjúpandi. Hér verður það áhugi sem ræður för; hvað þótti lesendum Vísis áhugaverðast, eftirtektarverðast eða beinlínis skemmtilegast á viðskiptaárinu sem er að líða?

Þungbær skattsvik

Mest lesna viðskiptafrétt ársins á Vísi var skrifuð snemma á árinu sem er að líða, strax í janúar. Þá bárust fregnir af því að Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, hafði hlotið fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir skattsvik. Var hann einnig dæmdur til að greiða fimmtán milljónir króna sekt innan fjögurra vikna.

Fréttin vakti töluverða athygli, ekki síst vegna þess að Heilsuvernd er umfangsmikið fyrirtæki á sviði heilbrigðisþjónustu. Tók félagið meðal annars við rekstri hjúkrunarheimila á Akureyri á síðasta ári.

Í yfirlýsingu Teits vegna dómsins sagði hann að málið hafi reynst sér þungbært undanfarin ár. Það tengdist fjármögnun sprotafyrirtækis sem hafi orðið gjaldþrota árið 2015. Hann hafi talið sig hafa greitt það sem honum bar við gjaldþrotið. Það væri þó léttir að því væri lokið.

Hvernig á venjulegt fólk að gera þetta?

Fá mál hafa verið í jafn miklum brennidepli á þessu ári og staðan á fasteignamarkaðinum. Gríðarlegar verðhækkanir á íbúðarhúsnæði komi sumum vel á meðan aðrir sátu, og sitja kannski enn, eftir í súpunni.

Þessi þróun fasteignamarkaðarins skilaði sér rækilega inn á lista Vísis yfir mest lesnu viðskiptafréttir ársins.

Þar má nefna raunasögu hjónanna Elvu Hrannar Hjartardóttur og Andra Reyrs Haraldssonar, sem í febrúar, stóðu í ströngu við að finna sér hentuga íbúð fyrir sig og tvö börn þeirra. Líkt og margir í húsnæðisleit kannast við hafði Elva legið á fasteignasölusíðum til að koma auga á draumahúsnæðið.

Í nóvember árið 2020 kom hún auga á hentuga blokkaríbúð. Ásettt verð 49,9 milljónir. Tilboð var gert en allt kom fyrir ekki. Öðru tilboði, þar sem boðin var staðgreiðsla, var tekið. Áfram hélt leitin.

„Svo fer ég og kíki á fasteignavefi í dag eins og venjulega og rek augun í íbúðina sem við gerðum tilboð í nóvember.

Sama íbúð, nákvæmlega sömu myndir, ekkert hefur verið gert fyrir íbúðina greinilega og svo sé ég verðið á henni og ætlaði ekki að trúa eigin augum,“ sagði Elva í viðtali við Vísi þann 18. febrúar síðastliðinn.

Íbúðin hafði verið sett aftur á sölu af þeim sem keyptu hana í nóvember. Núna var verðmiðinn 59,9 milljónir. Íbúðin hafði því hækkað um tíu milljónir króna á þremur mánuðum.

Fréttamaður setti sig í samband við annan eigenda íbúðarinnar sem staðfesti að engar framkvæmdir eða breytingar hafi verið gerðar frá því að hjónin keyptu hana í desember.

Líklega kjarnaði Elva stöðuna fyrir marga í fasteignaleit þegar hún sagði stöðuna vera „algjöra klikkun.“

„Það er ekki nokkur leið fyrir fyrstu kaupendur sérstaklega að komast inn á þennan markað eins og hann er núna, þar sem fólk er að staðgreiða eignir með engum fyrirvörum. Svo er fasteignaverðið orðið gígantískt og ég skil ekki alveg hvernig venjulegt fólk á að gera þetta.“

Uppbygging í Reykjavík. Sitt sýnist hverjum um hvort hún sé of hæg eða of hröð.vísir/vilhelm

Þess má þó geta að fasteignaleit Elvu Hrannar og Andra bar að lokum árangur, eins og Vísir sagði frá á sínum tíma.

Ekki sú eina

Fleiri fréttir af miklum hækkunum á fasteignamarkaðinum yfir skammt tímabil raða sér ofarlega á lista Vísis yfir mest lesnu viðskiptafréttir ársins.

Þar má nefna frétt um hús á Lindarbraut á Seltjarnarnesi, sem hafði verið á sölu í fimm mánuði, þegar fréttin var skrifuð í mars. Hún hafði hækkað um rúmar tuttugu milljónir króna í verði frá því það var sett á sölu í október árið 2020.

Örsaga í einn mynd um efnahagshárið 2022.

Þá vakti frétt Vísis um þriggja herbergja blokkaríbúð í Kópavogi sem hækkaði um sex milljónir króna á fimm daga tímabili. Fasteignasali sagði þá að aðstæður höfðu breyst hjá seljenda sem vildi reyna fá hærra verð fyrir eignina.

Hinir kröfuhörðu íslensku neytendur

Íslendingar eru kröfuharðir neytendur og láta ekki bjóða sér hvað sem er, á hvaða verði sem er. Neytendasamtökin standa vaktina fyrir neytendur hér á landi. Í mars gáfu þau út lista yfir sjö fyrirtæki sem neytendur voru varaðir við að skipta við.

Fyrirtækin áttu sér öll það sameiginlegt að hafa ekki farið að niðurstöðum kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Voru fyrirtækin nefnd svartir sauðir. 

Nú þegar árið er að líða undir lok eru fjögur af þessum sjö fyrirtækjum enn á lista Neytendasamtakanna yfir hina svörtu sauðu. Þrjú af þeim hafa hins vegar bætt ráð sitt ef marka má lista samtakanna.

Svo var það Costco

Bandaríska verslunarkeðjan Costco rataði einnig á lista Vísis yfir mest lesnu viðskiptafréttir ársins.

Á nýársdag birti Vísir frétt um að Neytendastofa hafi slegið á fingur Costco á Íslandi vegna tilhögunar og kynningar á endurnýjun viðskiptaaðildar hjá versluninni. Var hún talin villandi, ósanngjörn í garð neytenda og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á fjárhagslega hagsmuni þeirra.

Jólin eru komin í Costco.Vísir/Vilhelm

Costco áfrýjaði reyndar þessari niðurstöðu til Áfrýjunarnefndar neytendamála. Var nefndin á öndverðum meiði við Neytendastofu og kvað upp þann úrskurð að ekki hafi verið sýnt fram á að viðskiptahættir Costco hvað þetta varðar væru villandi eða í andstöðu við lög.

Spjótin stóðu hins vegar aftur á Costco í maí. Þá sagði Vísir af athugunum lögmannsins Þórðs Más Jónssonar af vöruverði Costco. Taldi Þórður Má að bandaríski verslunarrisinn væri einfaldlega að hafa sig að fífli.

„Ég fór í Costco fyrir nokkrum dögum með dóttur minni. Ég er löngu búinn að sjá hversu stórhættulegt er að versla þar ef maður passar sig ekki. Það eru mjög margar vörur þar sem eru rándýrar, mikið dýrari en annars staðar, fyrir utan að maður þarf að kaupa mjög mikið magn. Leggjum svo árgjaldið ofan á,“ sagði Þórður Már.

Benti hann til að mynda á að í raun þyrfti að greiða Costco fimmtíu krónur aukalega á hvern pakka fyrir að kaupa fimm Doritos-poka í Costco, miðað við verð í versluninni Krónunni.

„Eitt af fjölmörgum dæmum sem ég hef séð er þetta: Að kaupa 5 Doritos poka á 1.229 krónur, sem gerir 246 krónur stk. En ef maður kaupir sama snakk í stykkjatali í Krónunni greiðir maður 196 kr. stk. Maður þarf sem sagt að greiða Costco aukalegar 50 kr. stk. fyrir að fá að kaupa í miklu magni og 250 kr. í heildina. Einu sinni hélt ég að þetta væri öfugt, að maður fengi mun betri verð fyrir magnkaup en ekki öfugt.

Viðskiptaviðtöl ársins

Í erlendum fjölmiðlum hefur að undanförnu nokkuð verið fjallað um það sem nefnt hefur verið „The Great Wealth Transfer“ sem íslenska mætti sem Hina miklu eignatilfærslu. Er þar vísað í að hinir svoköllluðu „Boomers“ (stytting á Baby Boomers, kynslóðin sem fæddist á árunum 1946 til um það bil 1964. Oft þýtt sem eftirstríðsársbörn) hafi safnað meiri auð á sínar hendar en nokkrar aðrar kynslóðir í sögu mannkyns.

Með „Hinni miklu eignatilfærslu“ er átt við að þessi kynslóð muni, þegar sá tími er kominn á að kveðja, skilja afkomendur sína eftir með meiri auð, í formi arfs, en áður hefur þekkst. 

Mest lesna viðskiptaviðtal ársins á Vísi snýr einmitt að þessu. Þar var rætt við bankamanninn Tryggva Pálsson þar sem hann fór yfir einstaklega áhugavert lífshlaup sitt. Það sem vakti hins vegar mesta athygli í viðtalinu var hvatning hans til foreldra til að nýta peninga sína snemma, á meðan það hefur heilsu til.

„Því þegar að við föllum frá má gera ráð fyrir að börnin okkar séu á sjötugsaldri og sjálf löngu búin að koma sér vel fyrir. Þau hafa fengið stuðning í uppeldinu, náminu og ef til vill við kaup á fyrstu íbúðinni. Þannig að til hvers að keppast við að eiga eitthvað til að arfleiða fullorðna afkomendur að í stað þess að njóta þess sem þú ert búinn að vinna þér fyrir?“

Segja má að Guðmundur Aðalsteinn Þorvarðarson og Vilhjálmur Jón Guðjónsson hafi fylgt þessum ráða Tryggva. Í janúar greindi Vísir frá því blómabúðinni Barónessunni á Barónsstíg hafi verið lokað. Guðmundur og Vilhjálmur ákváðu nefnilega að skilja við allt sitt veraldlega á þessu ári og njóta lífsins.

„Frí. Við erum að gera mjög óvenjulega hluti fyrir menn á okkar aldri, við erum búnir að selja heimilið okkar líka og við erum að selja allt innbúið okkar. Þannig að við erum að losa okkur við allt veraldlegt sem heldur manni,“ sagði Guðmundur. Þó væri öruggt að þeir Vilhjálmur muni ferðast eitthvað.

Guðmundur Aðalsteinn Þorvarðarson og Vilhjálmur Jón Guðjónsson í blómabúðinni Barónessunni á Barónsstíg.Vísir/Vilhelm

„Við lærðum það af starfsfólkinu okkar í Suður-Afríku að sumt þeirra átti ekki borð og stóla en þetta var hamingjusamt fólk og við hugsum okkur að við séum menntskælingar, nýbúnir með stúdentspróf á leið út í heiminn. En núna eigum við fjármuni til að lifa því lífi vel.“

Þá vakti morgunrútína bakarans Jóhannes Felixssonar, Jóa Fel, mikla athygli. Sagðist hann alltaf hafa vaknað klukkan fimm á morgnana, en væri reyndar farin að sofa út í seinni tíð. Til klukkan sjö.

Síðasti dagur Brynju

Einu helsta kennileiti Laugavegarins, iðnaðarvöruversluninni Brynju var lokað í nóvember eftir 103 ára starf. 

Brynjólfur H. Björnsson, eigandi Brynjum stóð vaktina síðasta daginn og sagði tilfinninguna eftir lokunina ansi skrítna eftir áratugi í bransanum.

„Þetta var mjög skemmtilegur dagur, mikil traffík og fólkið náttúrulega kveður okkur og þakkar fyrir tímana alla og samveruna. Að geta farið hingað út í Brynju og náð sér í einhverja nauðsynlega hluti, það verði viðbrigði,“ sagði Brynjólfur.

Það vildi einnig svo til að síðasta varan í Brynju var seld í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Það var fréttamaðurinn Óttar Kolbeinsson Proppé sem fékk þann heiður að vera síðasti viðskiptavinur hinnar rótgrónu verslunar.

Nýjir eigendur húsnæðisins taka við því í byrjun næsta árs. Það vakti mikla athygli þegar Pepsi-Max auglýsingu hafði verið komið fyrir á húsi Brynju fyrir jólaörtröðina.

Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu sagði Halldóra Tryggvadóttir, vörumerkjastjóri óáfengra drykkja hjá Ölgerðinni, að fyrirtækinu hafði borist til eyrna að húsið yrði ekki nýtt frekar á þessu ári en nýir eigendur fá það ekki afhent fyrr en í byrjun næsta árs. Því fannst Ölgerðinni tilvalið að setja þar upp „Pepsi Max hús“ og lífga upp á annars tómt húsið í jólamánuðinum.

Röðin

Íslendingar elska góða röð. Þeim, röðunum það er, hefur þó farið fækkandi í seinni tíð. Hún var þó strangheiðarleg, röðin sem myndaðistí  Múlunum í Reykjavík um miðjan dag um miðjan október. Ástæðan? 

Útsalan trekkti að.Vísir/Vilhelm

Lagersala hjá bíumbíum, Snúrunni og Yeoman Reykjavík í Síðumúla. Fréttin var reyndar ekki löng, aðeins 76 orð, en hún var ríkulega myndskreytt myndum frá Vilhelm Gunnarssyni, ljósmyndara Vísis

Úrræðugóðu Akureyringarnir

Við endum þessa yfirferð á frétt sem Vísir birti í ágúst síðastliðnum. 

Þá greindi Vísir frá því að Akureyringar væru farnir að taka upp á því að panta heitan kvöldmat alla leið frá veitingastað í Reykjavík.

Allt hófst þetta þegar fastakúnni veitingastaðarins Bombay Bazaar flutti norður á Akureyri og spurði hvort það væri nokkuð mikið mál að fá kvöldmatinn heimsendan.

Ágúst Reynir Þorsteinsson, eigandi fjölskyldufyrirtækisins Bombay Bazaar, dó ekki ráðalaus og sendi matinn bara norður yfir heiðar með flugi. Þetta spurðist út og varð til þess að veitingastaðurinn sendir mat reglulega með flugi til Akureyrar.

Fréttamenn Vísis stóðust ekki mátið og prófuðu heimsendinguna. Afraksturinn má sjá í myndbandinu hér að neðan.

Hér að neðan má svo sjá hluta af þeim fréttum sem fönguðu hvað mesta athygli lesenda á síðasta ári, en ekki verið drepið á í þessari stuttu yfirferð.


Tengdar fréttir

Aðeins 32 ára í forstjórastólinn og veltir milljörðum á ári

Guðrún Ragna Garðarsdóttir varð forstjóri Atlantsolíu aðeins 32 ára gömul. Félagið veltir um sjö milljörðum á ári og þótt fyrirséðar séu breytingar í olíugeiranum vegna orkuskiptanna, er engan bilbug á Guðrúnu eða félaginu að finna.

Skellir í lás eftir 35 ára rekstur

Versluninni Tónspil í Neskaupstað verður skellt í lás á næstu vikum eftir 35 ára rekstur. Eigandinn segir blendnar tilfinningar einkenna tímamótin en fagnar því að áfram verði tónlistartengd starfsemi í húsinu.

Skuldar þrotabúi félags sonarins þrettán milljónir

Athafnamaðurinn Jón Ragnarsson þarf að greiða þrotabúi Harrow House ehf. tæpar þrettán milljónir króna eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Sonur Jóns var eigandi alls hlutafjár í Harrow House, sem rak veitingastaðinn Primo að Þingholtsstræti 1 í Reykjavík, áður en hann varð gjaldþrota.

Fram­kvæmda­stjóri Ölmu í felum og neitar að svara spurningum

Framkvæmdastjóri leigufélagsins Ölmu hefur ekki viljað ræða við fréttastofu vegna nýlegrar hækkunar á leigu öryrkja sem leigt hefur íbúð hjá félaginu undanfarin ár. Fjármálaráðherra segir hækkunina óforsvaranlega og formaður VR hefur kallað eftir neyðarlögum á leigufélög.

Boðar fleiri tugi þúsunda í sparnað með debetkortum

Fleiri þúsund manns eru á biðlista, en tvö hundruð manns hafa þegar tekið í notkun greiðslukort frá nýja samfélagsbankanum - eða sparisjóðnum - Indó. Greiðslukortunum fylgja ekki færslugjöld og framkvæmdastjóri sparisjóðsins segir viðskiptavini hæstánægða.

Nýjar peysur í H&M „vanvirðing við íslensku lopapeysuna“

Nýjar peysur í versluninni H&M vöktu at­hygli á dögunum. Peysurnar minna ó­neitan­lega á hinar klassísku ís­lensku lopa­peysur. Stjórnar­for­maður Hand­prjóna­sam­bandsins segir þetta miður, en munstrið sé þó ekki upp­runa­vottað.

Eina lausnin að borga auka­lega til að sitja með börnum sínum

Anna Gunndís Guðmundsdóttir gagnrýnir Icelandair harðlega fyrir viðmót gagnvart henni nú nýverið þegar hún keypti flugmiða fyrir sig og börnin sín til Kaupmannahafnar. Upplýsingafulltrúi Icelandair segir sveigjanleikann ekki jafn mikinn með litlum fyrirvara.

Hluthafar Íslandsbanka koma úr ólíkum áttum

Björn Bragi Arnarson, sjónvarpsmaður og grínisti, er á meðal þeirra fjárfesta sem fengu boð um að kaupa í Íslandsbanka. Björn Bragi keypti fyrir sautján og hálfa milljón króna í Íslandsbanka í gegnum félag sitt Bananalýðveldið. Hann er einn af fjölmörgum sem keyptu hlut í bankanum í nýafstöðunu útboði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×