Innherji

SKE samþykkir söluna á Mílu og kaupverðið lækkar í 69,5 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segist „afskaplega ánægður“ með að söluferlið hafi loksins klárast.
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segist „afskaplega ánægður“ með að söluferlið hafi loksins klárast.

Samkeppniseftirlitið og sjóðastýringarfyrirtækið Ardian hafa náð samkomulagi um þau skilyrði sem verða sett við kaupin á Mílu en erfiðar viðræður hafa staðið yfir milli eftirlitsins og franska félagsins allt frá því í júlí. Forstjóri Símans segist „afskaplega ánægður“ með að söluferlið hafi loksins klárast.

Þá hafa náðst samningar milli Ardian og Símans, eiganda Mílu, um að kaupverðið verði samhliða lækkað um 3,5 milljarða til viðbótar og verði því 69,5 milljarðar. Hefur kaupverðið lækkað um samtals 8,5 milljarða frá því að fyrst var tilkynnt um söluna á Mílu til Ardian í október 2021 en þá var ráðgert að verðmiðinn á félaginu væri 78 milljarðar. Lækkunin á söluandvirðinu nemur því um 11 prósentum.

Í tilkynningu frá Símanum til Kauphallarinnar segir að meðal þeirra breytinga sem eru gerðar á fyrra samkomulagi er að Síminn muni fá greitt um 33 milljarða króna í reiðufé þegar viðskiptin formlega klárast í lok þessa mánaðar og þá fær félagið að auki skuldabréf til þriggja ára að fjárhæð 17,5 milljarða. Áður var gert ráð fyrir að skuldabréfi upp á 19 milljarða króna en það verður að fullu framseljanlegt og mun bera 4 prósent árlega vexti.

Vegna þessara breytinga á kaupsamkomulaginu er áætlaður hagnaður Símans, sem er að tveimur þriðju hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, núna um 38,3 milljarðar króna. Áður var ráðgert að hann yrði tæplega 47 milljarðar króna.

Orri Hauksson, forstjóri Símans, viðurkennir að söluferlið hafi reynst „langvinnara en hægt var að sjá fyrir,“ en að núna muni hefjast nýr kafli í fjarskiptasögu Íslands samhliða því að slitið verður á eignarhald Símans og Mílu.

Samkvæmt frummati Samkeppniseftirlitsins, sem var birt fulltrúum Ardian 1. júlí síðastliðinn, var það niðurstaðan að viðskiptin og tengdir samningar myndu að óbreyttu hindra virka samkeppni, sem kallaði á skilyrði ætti að ljúka þeim. Í kjölfarið endursamdi Síminn við Ardian sem fól meðal annars í sér að gildistími heildsölusamningsins milli Mílu og Símans var styttur úr 20 árum í 17 ár. Það leiddi af sér lækkun á söluandvirðinu um fimm milljarða króna og hækkun á seljendaláni um fjóra milljarða, úr 15 í 19 milljarða.

Keppinautar Símasamstæðunnar töldu hins vegar ekki nægjanlega langt gengið og að fyrirhugaður einkakaupasamningur á milli Símans og Mílu til 17 ára myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði og því þyrfti að stytta lengd samningsins til muna.

Ardian og Síminn gerðu á móti margvíslegar athugasemdir við umsagnir keppinautanna, einkum umsögn Ljósleiðarans, sem, að sögn franska sjóðastýringarfyrirtækisins, leitast við að fá Samkeppniseftirlitið til þess að „verja markaðsráðandi stöðu sína“.

Að sögn Orra mun Síminn núna, eftir að salan hefur klárast, einbeita sér að því að veita viðskiptavinum sínum hágæða fjarskiptaþjónustu um land allt, en eftirláta öðrum fjárfestingar í innviðum. Ardian hefur gefið það út að félagið áætli að fjárfesta fyrir um 28 milljarða króna í innviðum Mílu til ársins 2030.

„Ardian, nýr eigandi Mílu, sýndi þolgæði og framsýni í þessu erfiða ferli. Allur íslenskur almenningur má vænta mikils af Ardian og Mílu í uppbyggingu fjarskipta um land allt og njóta góðs af þessum viðskiptum, bæði sem neytendur og sem hinir endanlegu eigendur lífeyrissjóðanna, sem eru stærstu hluthafar Símans,“ segir Orri, en stærsti einstaki hluthafi Símans, með yfir 15 prósenta hlut, er fjárfestingafélagið Stoðir.

Dr. Daniel von der Schulenburg, framkvæmdastjóri og yfirmaður Ardian Infrastructure fyrir Þýskaland, Benelux löndin og Norður-Evrópu, segir í tilkynningu að sjóðastýringarfyrirtækið sé ánægt með að hafa náð þessum mikilvæga áfanga.

„Við viljum þakka stjórnendum Símans og Mílu ásamt samkeppnisyfirvöldum fyrir þá miklu vinnu sem þessir aðilar hafa lagt á sig til að ná þessu saman. Míla er langtímafjárfesting fyrir Ardian og ætlum við okkur að veita Símanum og öllum öðrum viðskiptavinum Mílu fyrsta flokks þjónustu á sama tíma og við hröðum uppbyggingu fjarskiptainnviða á Íslandi.“


Tengdar fréttir

Hvað mun það kosta Símann að fá blessun SKE fyrir sölunni á Mílu?

Þegar Síminn tilkynnti um samkomulag um sölu á dótturfélagi sínu Mílu í lok október í fyrra til franska sjóðastýringarfélagsins Ardian voru það stór tíðindi fyrir neytendur sem sjá nú fram á meiri samkeppni á bæði heildsölu- og smásölumarkaði fjarskipta – og ekki síður munu viðskiptin flýta fyrir nauðsynlegri uppbyggingu fjarskiptainnviða um allt land. Fyrir flestum eru þessi sannindi augljós og óumdeild.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.