Viðskipti innlent

Þor­valdur tekur við af Kristjáni hjá Sam­herja

Árni Sæberg skrifar
Þorvaldur Þóroddsson er nýr framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja.
Þorvaldur Þóroddsson er nýr framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Sigurður Bogi Sævarsson/samherji.is

Þorvaldur Þóroddsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja. Hann leysir Kristján Vilhelmsson af hólmi, sem sinnti starfinu í 43 ár.

Í tilkynningu þess efnis á vef Samherja segir að Þorvaldur sé menntaður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hafi undanfarin ár séð um hráefnisstýringu hjá landvinnslum Samherja. Þar áður hafi hann verið gæða- og þróunarstjóri félagsins. Þorvaldur hafi starfað hjá Samherja frá árinu 2005.

Kristján Vilhelmsson einn stofnenda Samherja lét af starfi framkvæmdastjóra útgerðarsviðs nú um mánaðamótin eftir 43 ára starf.

„Ég er þakklátur yfirstjórn félagsins fyrir traustið. Skip Samherja eru afar vel búin og vel mönnuð. Í landi starfar sömuleiðis traustur hópur sem hefur víðtæka reynslu af útgerð, þannig að grunnurinn er sannarlega góður. Sjálfur þekki ég ágætlega til innviða Samherja þar sem metnaður að gera betur og samvinna hefur alltaf verið leiðarstefið. Spor Kristjáns Vilhelmssonar verða vissulega vandfyllt en eftir okkar góða samstarf í gegn um árin veit ég að dyr hans munu alltaf standa mér opnar, rétt eins og hjá öllu öðru starfsfólki félagsins,“ er haft eftir Þorvaldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×