Neytendur

Á­fram­haldandi kröftugur hag­vöxtur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Útflutningur var helsti drifkraftur hagvaxtar á þriðja ársfjórðungi samkvæmt niðurstöðum Hagstofu.
Útflutningur var helsti drifkraftur hagvaxtar á þriðja ársfjórðungi samkvæmt niðurstöðum Hagstofu. Vísir/Vilhelm

Vöxtur vergrar landsframleiðslu (VLF) á föstu verðlagi er 7,3 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins mælist raunvirði VLF um 7,4 prósentum meiri en á sama tíma í fyrra. Útflutningur er helsti drifkraftur hagvaxtar. 

Undanfarnir fimm ársfjórðungar hafa einkennst af kröftugum vexti útflutnings en Hagstofan áætlar að vöxtur útflutnings hafi numið 22,9 prósent. Að miklu leyti má rekja hækkunina til útfluttrar þjónustu. Að sama skapi reyndist vöxtur innflutnings mikill og nam átján prósentum miðað við sama tíma fyrir ári síðan. 

Í greiningu Hagstofunnar segir að VLF á föstu verðlagi sé hærri en fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga er VLF á föstu verðlagi nú 3,8 prósentum hærri en á sama tíma árið 2019.

Vöxtur einkaneyslu er mikill og mælist 10,9 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Vöxtur einkaneyslu er að mestu borinn uppi af auknum útgjöldum Íslendinga erlendis sem endurspeglar mikinn fjölda þeirra sem hafa lagt land undir fót. Samdráttur mælist í nokkrum undirliðum einkaneyslunnar, til að mynda í ökutækjakaupum heimila.

Vöxtur útflutnings á þriðja ársfjórðungi þessa árs er áætlaður 22,9 prósent miðað við sama tíma fyrir ári en líkt og undanfarna ársfjórðunga má aðallega rekja vöxtinn til útfluttrar þjónustu sem jókst um 45,6 prósent að raunvirði frá fyrra ári. 

Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði mælist um 39,4 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi eða sem nemur um fjögur prósent af VLF samanborið við um 2,1 prósent á sama tíma í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs reyndist halli á vöruskiptajöfnuði um 70,7 milljarðar króna en um 110,1 milljarða króna afgangur á þjónustujöfnuði. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×