Erlent

Til­kynning um stóran á­fanga í kjarna­sam­runa sögð væntan­leg

Kjartan Kjartansson skrifar
Í kjarnasamrunaofni er tvær frumeindir látnar rekast saman á miklum hraða og orkan notuð til að framleiða rafmagn.
Í kjarnasamrunaofni er tvær frumeindir látnar rekast saman á miklum hraða og orkan notuð til að framleiða rafmagn. Vísir/Getty

Bandaríska orkumálaráðuneytið ætlar að tilkynna um stóran áfanga í kjarnasamruna á morgun. Vísindamenn eru sagðir hafa náð kjarnasamruna sem framleiddi meiri orku en fór í að hrinda honum af stað.

Draumórar hafa lengi verið um að kjarnasamruni, líkt og sá sem knýr sólina, verði framtíðarorkugjafi mannkyns en með honum væri í kenningunni hægt að framleiða nær óþrjótandi hreina orku. Ólíkt kjarnorkuverum sem nota kjarnakljúfa til að framleiða orka fellur ekki til mikið magn úrgangs sem er geislavirkur í langan tíma við kjarnasamruna. Ferlið er einnig kolefnisfrítt.

Gríðarlega orku þarf til þess að koma kjarnasamruna af stað og fram að þessu hefur engum tekist að framleiða meiri orku með honum en þá sem tók til að hefja hann. Í fyrra greindu forsvarsmenn Kvikunarstöðvar Bandaríkjanna (NIF) við Lawrence Livermore-rannsóknarstöðina í Kaliforníu að þeir hefðu náð að framleiða um 70% orkunnar sem fór í samrunann.

Washington Post segir að fulltrúar Kviknunarstöðvarinnar hafi ekki viljað tjá sig um nýjasta áfanga þeirra. Engar frekari upplýsingar verði veittar fyrir tilkynningu ráðuneytisins á morgun. Tilkynning er sögð snúast um „meiriháttar vísindaafreki“.

Þrátt fyrir að um stórt skref í átt að sjálfbærum kjarnasamruna væri að ræða er tæknin líklega áratugum frá því að verða raunhæfur kostur í orkuframleiðslu. Bandaríkin, Evrópuríki og Rússland hafa varið milljörðum dollara í þróun kjarnasamruna undanfarna áratugi.

Fjöldi kosta umfram hefðbundna orkugjafa

Menn hefur lengi dreymt um að beisla kraft kjarnasamruna enda eru kostirnir umfram aðra hefðbundna orkugjafa margir. Aðaleldsneyti samrunans eru vetnissamsætur sem eru nær óþrótandi auðlind á jörðinni. Orkuframleiðsla með samruna væri því ekki háð staðbundnum eða árstíðarbundnum breytum. 

Engar gróðurhúsalofttegundir sem valda hlýnun loftslagsins losna við samrunann og úrgangurinn er óvirka gasið helín.

Þegar frumeindir eru klofnar í hefðbundnum kjarnorkuverum fellur til umtalsvert úrgangs sem getur verið geislavirkur í allt að milljónir ára. Við kjarnasamruna myndast þrívetni sem er geislavirkt en helmingunartími þess er aðeins rúm tólf ár.

Engin hætta er heldur á kjarnorkuslysi við kjarnasamruna þar sem ferlið byggir ekki á keðjuverkun, ólíkt kjarnakljúfum. Fari eitthvað úrskeiðis, hvort sem það tengist orkunni sem heldur samrunanum gangandi eða segulsviði sem heldur ofurheitu rafgasi í kjarnasamrunaofni í skorðum, stöðvast samruninn á örskömmum tíma, að því er segir á vef Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.

Kjarnasamruni á sér stað náttúrulega í kjarna sólarinnar og annarra stjarna þar sem þyngdarkraftur þeirra þrýstir frumeindum saman við gríðarlegan hita. Flest frumefni í alheiminum sem eru þyngri en vetni og helín mynduðust í kjarna stjarna.

Á jörðinni reyna vísindamenn að kveikja kjarnasamruna með því að beina fjölda leysigeisla að hylki með tví- og þrívetni. Við það þéttist efnið gríðarlega og verður hundrað sinnum eðlisþéttara en blý og hitnar upp í 100 milljón gráður á Celsíus.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Telja sig nálgast tímamót í kjarnasamruna á tilraunastofu

Bandarískir vísindamenn telja sig nú nálgast það markmið að búa til orku með kjarnasamruna á tilraunastofu. Í tilraun fyrr í þessum mánuði náði orkan sem varð til við samrunann 70% af orkunni sem fór í að framkalla hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×