Sport

Gull­lyfta og gleði ís­lenska Norður­landa­meistarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birta Líf Þórarinsdóttir með gullið og íslenska fánann í mótslok.
Birta Líf Þórarinsdóttir með gullið og íslenska fánann í mótslok. Instagram/@birtalifth

Ísland eignaðist fjóra Norðurlandameistara á Norðurlandamóti barna og unglinga í lyftingum sem fram fór í Miðgarði í Garðabæ um helgina.

Hin tvítuga Birta Líf Þórarinsdóttir var eina íslenska stelpan sem vann Norðurlandameistaratitil að þessu sinni. Birta Líf lyfti 86 kílóum í snörun og svo 107 kílóum í jafnhendingu. Þetta gerir 193 kíló samanlagt og tryggði henni gull í 76 kílóa flokki unglinga.

Hin sautján ára gamla Úlfhildur Arna Unnarsdóttir varð að sætta sig við silfrið í 71 kílóa flokki stúlkna en hún lyfti 85 kílóum í snörun og svo 102 kílóum í jafnhendingu. Þetta gerir 187 kíló samanlagt og vantaði hana fimm kíló að ná finnska Norðurlandameistaranum.

Birta Líf hafði betur í keppni við tvær norskar stelpur. Hér fyrir neðan má sjá þegar hún lyfti 107 kílóunum og tryggði sér gullið.

Hinn nítján ára gamli Bjarki Breiðfjörð vann gull í flokki unglinga í 81 kílóa flokki með því að lyfta 116 kílóum í snörun og 130 kílóum í jafnhendingu eða 246 kílóum samanlagt.

Hinn tvítugi Brynjar Logi Halldórsson vann gull í flokki unglinga í 89 kílóa flokki með því að lyfta 137 kílóum í snörun og 158 kílóum í jafnhendingu eða 295 kílóum samanlagt.

Hinn sautján ára gamli Þórbergur Ernir Hlynsson vann gull í flokki pilta í 89 kílóa flokki með því að lyfta 104 kílóum í snörun og 127 kílóum í jafnhendingu eða 231 kílói samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×