Innlent

Segir malbikun sveitavega snúast um lífsgæði og endingu á bílum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, með Blönduós í baksýn.
Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, með Blönduós í baksýn. Sigurjón Ólason

Átaks er þörf til að byggja upp sveitavegi landsins, að mati forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar. Hann telur athugandi að slaka á kröfum um umferðarhraða ef það mætti verða til þess að malbik kæmist á fleiri kílómetra.

Í fréttum Stöðvar 2 voru Húnavatnssýslur heimsóttar en rennislétt slitlag er sú mynd sem flestir landsmenn hafa af þjóðveginum um héraðið. En þegar beygt er út á sveitavegina tekur við allt annar veruleiki; mjóir, holóttir malarvegir með varasömum blindhæðum og beygjum.

Þegar við mynduðum vegagerð í Refasveit í haust milli Blönduóss og Skagastrandar fagnaði oddviti Húnaþings því að losna við gamla veginn.

Frá vegagerð í Refasveit.Sigurjón Ólason

„Það sem er auðvitað leiðinlegt við þetta er það að við eigum bara allt of mikið af svona verkefnum hér, sem þarf að fara í. Við erum bara allt of langt á eftir með okkar vegasamgöngur hér í þessum landshluta,“ sagði Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.

Hann telur þörf á átaki í endurnýjun sveitavega.

„Klárlega. Tengivegir og svoleiðis. Ég meina, þetta eru vegir sem fólk keyrir um alla daga til þess að sækja sína vinnu og þjónustu. Við viljum meira.“

Frá sveitavegi í Húnaþingi vestra. Þessi er um Fitjárdal ofan Víðidals.Egill Aðalsteinsson

Hann spyr hvort slaka megi á kröfum.

„Malbika eða setja bundið slitlag á vegi í því formi sem þeir eru til þess að við séum ekki með þetta, bjóðum ekki skólabörnum hér í þessu kjördæmi upp á það sem er verið að gera, eins og á Vatnsnesvegi og hér inn til allra sveita og á Skagaveginum, fyrir Skaga.

Og án ábyrgðar: Ef það er slakað á kröfum og hugsanlega tekinn niður umferðarhraði á fáfarnari sveitavegum, erum við þá að tala um vegagerð þar sem er hægt að komast sjö kílómetra í staðinn fyrir einn? Í fullbreiðum vegi?“

Þetta snúist bæði um öryggi og lífsgæði.

„Lífsgæði og bara endingu á bílunum okkar,“ segir forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Dalasýsla er annað hérað sem býr við hátt hlutfall malarvega, sem fjallað var um þessari frétt fyrir fimm árum:

Í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið kallað eftir endurbótum sveitavega, eins og heyra mátti í þessari frétt fyrir sex árum:


Tengdar fréttir

Segjast hafa Húnvetninga í vinnu til að halda friðinn

Húnvetningar sjá fram á miklar samgöngubætur með fimmtán kílómetra vegagerð í Refasveit. Þetta er stærsta verk sem unnið er að á Norðurlandi vestra um þessar mundir, upp á einn og hálfan milljarð króna. Það eru hins vegar Skagfirðingar sem annast vegagerðina.

Malarvegirnir hamla eflingu ferðaþjónustu

Malarvegir hamla því að ferðaþjónusta geti eflst í Dalasýslu sem mótvægi við samdrætti í landbúnaði, að mati forystumanna í héraðinu. Þar er kallað eftir alvöru byggðastefnu fyrir kosningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×