Sport

Þrír berjast við goðsögnina Guðjón um sæti í úrslitum

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Hauksson, Karl Helgi Jónsson, Siggi Tomm og Björn Steinar Brynjólfsson berjast í kvöld um eitt laust sæti á úrslitakvöldinu.
Guðjón Hauksson, Karl Helgi Jónsson, Siggi Tomm og Björn Steinar Brynjólfsson berjast í kvöld um eitt laust sæti á úrslitakvöldinu. Stöð 2 Sport

Hinn 62 ára gamli Guðjón Hauksson, ellefufaldur Íslandsmeistari í einmenningi í pílukasti, mætir til leiks í kvöld þegar þriðja keppniskvöldið í Úrvalsdeildinni fer fram á Bullseye, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Guðjón, sem er Grindvíkingur, er sannkölluð goðsögn í píluheiminum enda afar sigursæll hér á landi á árum áður. 

Auk Íslandsmeistaratitla í einmenningi hefur hann einnig oft orðið Íslandsmeistari í tvímenningi og unnið fleiri titla. Síðasti Íslandsmeistaratitill hans í einmenningi kom hins vegar fyrir fjórtán árum.

Guðjón keppir ásamt þremur öðrum um eitt laust sæti á úrslitakvöldinu sem fram fer í desember. Áður hafa þeir Arnar Geir Hjartarson og Vitor Charrua tryggt sér sæti á úrslitakvöldinu þar sem fjórir keppendur munu berjast um sigurinn.

Guðjón Hauksson er margfaldur Íslandsmeistari í einmenningi og tvímenningi.grindavik.is

Guðjón mun í kvöld keppa við þá Björn Steinar Brynjólfsson, Sigurð Tómasson og Karl Helga Jónsson. 

Björn, sem er fertugur, er líkt og Guðjón frá Grindavík, fyrrverandi körfuknattleiksmaður og þjálfari.

Sigurður, eða Siggi Tomm, er 49 ára kennari frá Akranesi sem fyrst prófaði pílukast árið 1987 en hellti sér svo aftur út í íþróttina árið 2019, og Karl Helgi er svo 57 ára kokkur hjá Grillvagninum sem æft hefur pílukast í nokkur ár.

Keppnin er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×