Sport

Bað andstæðing afsökunar á að hafa rotað hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robert Helenius lá kylliflatur eftir rothögg Deontays Wilder.
Robert Helenius lá kylliflatur eftir rothögg Deontays Wilder. getty/Al Bello

Bandaríski hnefaleikakappinn Deontay Wilder var greinilega með móral yfir því hvernig fór fyrir Finnanum Robert Helenius í bardaga þeirra um helgina.

Wilder rotaði Helenius með þungu hægri handar höggi í fyrstu lotu. Sá finnski lá hreyfingarlaus eftir og var fluttur á sjúkrahús.

Helenius var útskrifaður þaðan eftir skoðanir og daginn eftir heimsótti Wilder hann og baðst afsökunar á að hafa rotað hann.

Í myndbandi sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum sást Wilder faðma Helenius og biðjast afsökunar á rothögginu. Finninn sagði honum að hafa ekki áhyggjur og sagðist vera svekktur að hafa ekki veitt Wilder meiri keppni í bardaganum.

Helenius tjáði Wilder svo að hann hefði lagt hanskana á hilluna. Hann er 38 ára og á 35 bardaga á ferilskránni. Hann vann 31 þeirra, þar af tuttugu með rothöggi.

Wilder hefur unnið 43 af 46 bardögum sínum á ferlinum, þar af 42 með rothöggi. Áður en að bardaganum gegn Helenius kom hafði hann tapað tvívegis fyrir Englendingnum Tyson Fury.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×