Sport

For­seti norska skák­sam­bandsins viður­kennir svindl og er hættur

Atli Ísleifsson skrifar
Joachim Birger Nilsen tók við stöðu forseta norska skáksambandsins í júlí.
Joachim Birger Nilsen tók við stöðu forseta norska skáksambandsins í júlí. Sjakk.no

Joachim Birger Nilsen, forseti norska Skáksambandsins, hefur sagt af sér eftir að hann viðurkenndi í gær að hafa svindlað á móti tímabilið 2016 til 2017. Hinn 29 ára Nilsen tefldi á sínum tíma fyrir skákliðið Norway Gnomes, því sama og hinn bandaríski Hans Niemann tefldi fyrir árið 2020.

Nilsen greindi frá ákvörðun sinni um að segja af sér í tilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun. Hann segir það hafa verið mikinn heiður að leiða norska skáksambandið og skáksamband ungmenna síðustu tvö árin en að það sé það eina rétta í stöðunni að segja af sér.

Í yfirlýsingu frá stjórn norska skáksambandsins segir hún kunni að meta að Nilsen axli ábyrgð með þessum hætti og setji hagsmuni skákfjölskyldunnar framar sínum eigin.

Nilsen viðurkenndi í gær að hann hafi teflt skák á netinu með annan mann í herberginu í forkeppni riðlakeppni Pro Chess League tímabilið 2016 til 2017. Hafi hann þannig svindlað með því að hafa þegið aðstoð.

Mikið hefur verið fjallað um svindl í skákheiminum eftir að norski heimsmeistarinn Magnus Carlsen hætti í miðri keppni á Sinquefield-mótinu í byrjun september þar sem hann keppti á móti hinum bandaríska Hans Niemann. Fóru fljótlega orðrómar á kreik um að Carlsen hafi talið að Niemann hafi verið að svindla.

Wall Street Journal greindi frá því fyrr í vikunni að ný rannsókn Chess.com sýni að Niemann virðist hafa svindlað oftar en hundrað sinnum á ferli sínum. Eigi hann að hafa svindlað á skákmótum allt til ársins 2020 og þegið verðlaunafé fyrir í einhverjum tilfellum.


Tengdar fréttir

Niemann hafi svindlað oftar en hundrað sinnum

Skákmaðurinn Hans Niemann virðist hafa svindlað oftar en hundrað sinnum á ferli sínum, ef marka má rannsókn skákþjónsins Chess.com. Niemann á að hafa svindlað á skákmótum allt til ársins 2020 og þegið verðlaunafé fyrir í einhverjum tilfellum.

Titrandi hringur og þyngdir fiskar nýjustu hneykslin eftir skáksvindlið

Ásakanir um svindl skóku póker og veiðiheimana í Bandaríkjunum í síðustu viku, innan við mánuði eftir að greint var frá meintu svindli með hjálpartækjum ástarlífsins í skákheiminum. Titrandi hringur er sagður hafa verið notaður í stórum pókerleik og blýkúlum komið fyrir í fiskum í veiðikeppni. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.