Innlent

„Þau völdu ekki að vera á flótta en þau þurfa að gera það“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi alþjóðateymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Drífa Baldvinsdóttir, verkefnastjóri samfélagshússins á Vitatorgi. Myndin er samsett.
Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi alþjóðateymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Drífa Baldvinsdóttir, verkefnastjóri samfélagshússins á Vitatorgi. Myndin er samsett. Vísir

Kona sem flúði Bosníustríðið ásamt fjölskyldu sinni til Íslands fyrir tuttugu og sex árum sér nú um að taka á móti mesta straumi flóttafólks til Reykjavíkur frá upphafi. Hún segir flóttafólk afar ánægt með að geta hitt Íslendinga á félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Reykjavíkurborg hefur aldrei í sögunni veitt eins mörgu flóttafólki þjónustu og í ár eða ríflega þúsund manns. Til samanburðar veitti velferðarsviðið borgarinnar um hundrað og þrjátíu manns þjónustu 2018. Stór hluti fólks sem hefur komið hingað undanfarið er frá Úkraínu en einnig frá Venezúela.

Jasmina Vajzovic Crnac, leiðtogi alþjóðateymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir að vel hafi gengið að útvega fólki húsnæði og vinnu í borginni.

„Það eru mörg fyrirtæki að bjóða fólki vinnu þannig að það hefur gengið vonum framar,“ segir Jasmina.

Jasmina sem flúði hingað sem barn ásamt fjölskyldu sinni vegna Bosníustríðsins segir afar mikilvægt að taka vel á móti flóttafólki og hjálpa því að samlagast sem fyrst.

„Við þurfum að taka mjög vel á móti fólki, vera opin, reyna að spjalla, reyna að fá þau til að vera hluti af samfélaginu, þetta er bara venjulegt fólk eins og hver annar. Þau eru í viðkvæmri stöðu vegna þess að þau misstu allt, þau völdu ekki að vera á flótta en þau þurfa að gera það,“ segir Jasmina.

Jasmina segir að starfsfólk velferðarsviðs hafi fundið upp á ýmsum nýjungum til að taka sem best á móti flóttafólki til að mynda hafi félagsmiðstöðin Vitatorg boðið fólk í þessari stöðu velkomið en þar hefur um árabil verið rekið ýmiskonar félagsstarf fyrir fólk á öllum aldri.

„Undanfarið þá höfum við verið svona að leggja meiri áherslu á einmitt að bjóða fólk af erlendum uppruna velkomið til okkar og höfum núna verið í samstarfi við Rauða krossinn. Þar sem að starfsmenn og sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum hafa verið að koma inn í starfið hjá okkur og halda viðburði og vera með dagskrá þar sem er svona sérstaklega verið að reyna að höfða til þessa hóps,“ segir Drífa Baldvinsdóttir, verkefnastjóri samfélagshússins á Vitatorgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×