Umfjöllun og viðtöl: Víkingur-KR 5-3 | Hádramatískt í Víkinni

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Víkingar fagna marki
Víkingar fagna marki Vísir/Diego

Ríkjandi bikarmeistarar Víkings eru á leið í undanúrslit Mjólkurbikars karla eftir dramatískan sigur gegn KR í kvöld. Lokatölur 5-3, en tvær vítaspyrnur voru dæmdar á seinustu mínútum leiksins.

Það voru frábærar aðstæður í Víkinni í kvöld þegar heimamenn og ríkjandi bikarmeistarar Víkings tóku á móti KR í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Svo gott sem enginn vindur, rigning beint ofanaf himnum og rétt um 10 stiga hiti.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en það var á 16. mínútu leiksins sem KRingar héldu að þeir hefðu komist yfir. Atli Sigurjónsson átti þá fasta fyrirgjöf frá vinstri sem Hallur Hansson tók á móti og skilaði í netið. Markið var dæmt af vegna rangstöðu og maður heyrði hrópin úr Vesturbænum alla leið í Fossvoginn en ákvörðun Péturs dómara stóð.

Heimamenn voru fyrstir á blað en þar var að verki Erlingur Agnarsson á 30. mínútu. Pablo Punyed fékk þa boltann á vinstri kantinum, smellti boltanum fyrir á fjærstöngina þar sem Erlingur lúrði og skallaði boltann í netið. Vel gert hjá Víkingum en full auðvelt fyrir Erling að komast að boltanum.

Á 36. mínútu jók Víkingur forystuna. Helgi Guðjónsson, sem hafði komið inná sem varamaður átti þá sendingu fyrir markið frá hægri. Boltinn sveif yfir allan teiginn á Birni Snæ Ingason sem skoraði auðveldlega af stuttu færi. Aftur vel gert hjá Víkingum og aftur varnarlína KR að gleyma sér.

Víkingar höfðu svo yfirhöndina það sem eftir lifði hálfleiksins en það voru KR sem minnkuðu muninn rétt áður en hálfleikurinn var flautaður af. Kennir Chopart átti þá fyrirgjöf sem Ægir Jarl reyndi að koma í markið með einhvers konar bakfallsspyrnu sem misheppnaðist. Það var þó lán í óláni fyrir KR að boltinn datt beint fyrir fætur Theódórs Elmars Bjarnasonar sem skoraði auðveldlega. 2-1 í hálfleik.

Pétur Guðmundsson dómari leiksins hafði í nægu að snúastVísir/Diego

Síðari hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði. Víkingar með talsverða yfirburði og skoruðu þriðja mark sitt á 55. mínútu. Þar var að verki Ari Sigurpálsson eftir skemmtilegan undirbúning frá Birni Snæ og Danijel Djuric.

Atli Sigurjónsson minnkaði svo muninn á 66. mínútu með skalla eftir virkilega snyrtilegan undirbúning Stefáns Árna Geirssonar sem hafði komið inná sem varamaður skömmu áður.

Víkingar komust í nokkrar stórhættulegar stöður eftir þetta en tókst ekki að skora og KR refsuðu á 85. mínútu með nokkuð skrautlegum hætti. Þorsteinn Már Ragnarsson átti þá fyrirgjöf sem Sigurður Bjartur Hallsson smellti í stöngina og Stefán Árni skoraði úr frákastinu. Dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu á brot á Sigurði Bjarti. Nokkuð óskiljanlegur dómur en Sigurður tók bara vítið sjálfur og skoraði, 3-3 og framlenging á dagskránni. Eða hvað?

Víkingar geystust fram og brotið var á Danijel Djuric innan teigs á 87. mínútu. Dómaratríóið tók sér góðann tíma en dæmdu að lokum víti. Helgi Guðjónsson steig á punktinn og kom víkingi í 4-3, þvílík dramatík. Það var svo Sigurður Steinar Björnsson sem kláraði leikinn fyrir Víkinga með góðu skoti eftir frábært einstaklingsframtak á 89. mínútu. Lokatölur 5-3 í þessum frábæra fótboltaleik.

Sigur Víkinga staðreynd og bikarmeistararnir komnir áfram í undanúrslit.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR ásamt ráðgjafaVísir/Diego

Rúnar Kristins: Óþolandi að fá á sig fimm mörk

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR var að vonum svekktur í leikslok en vildi ekki ræða einstök atvik. Aðspurður hvort það væri samt ekki nóg að ræða sagði Rúnar:

Já fullt að ræða, en það er bara fyrir einhverja aðra en mig að tjá sig um það sem gerist í leiknum. Fullt af atriðum sem er hægt að dískútera en ég sé þetta ekki af hliðarlínunni, hef samt skoðanir á ýmsu og stundum hefur maður rétt fyrir sér og stundum rangt, en svona er það með okkur þjálfarana að við viljum æsa okkur eftir leik en það auðvitað þýðir ekki neitt“, sagði Rúnar.

En hvað gerðist í lokin?

Ég veit það ekki, aðdragandinn af vítinu sem þeir fá er svolítið skrítinn og ég veit ekki alveg hvernig þetta þróaðist allt saman. En eftir að hafa komið til baka 3-3 og eftir að hafa þrýst þeim örlítið til baka á þeim tímapunkti þá svona vonaðist maður að við gætum náð að skora fjórða markið. Eða koma þessu í framlengingu. Ekki fá á okkur annað mark aftur þegar við erum búnir að fá á okkur þrjú mörk nú þegar. Það er óþolandi að fá á sig fimm mörk en ég set spurningamerki við ýmislegt sem betur hefði mátt fara. Bæði hjá okkur og öðrum“, sagði Rúnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira