Menning

Af hverju er alltaf svona vandræðalegt að syngja afmælissönginn?

Snorri Másson skrifar

„Hann á afmæli í dag, hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Jónas, hann á afmæli í dag.“ Höldum við áfram núna? er spurning sem vaknar í huga margra einmitt þegar þetta erindi klárast. Væri ekki hægt að komast að samkomulagi um eitt eða tvö erindi íslenska afmælissöngsins?

Þessar vangaveltur eru efni Reddit-færslu sem birtist á þræði um Ísland fyrr á þessu ári. Þar skrifaði Birkir nokkur: „Þegar við syngjum afmælislagið syngjum við seinna erindið bara í svona 50% tilvika. Þannig að það er vandræðalegt augnablik eftir fyrsta erindið þar sem allir hika af því að þeir vilja ekki vera sá eini sem syngur, en svo byrjar einhver að syngja og þá dragast allir með.“

„Getum við ekki bara komið okkur saman um eina útgáfu?“ spyr Birkir. 

Í Íslandi í dag á miðvikudag spurðum við þjóðfræðing að þessu sama, og hittum kammerkórinn Huldur. Mælt er með því að vinda sér í innslagið hér að ofan, en í seinni hluta þess má hlýða á magnaðan flutning kórsins á „öllum fimm“ erindum lagsins undir traustri stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Í lok þáttarins er lagið flutt í heild.

Skemmtilegt að ekki sé hægt að komast að samkomulagi

Afmælislagið eins og Íslendingar þekkja það hefur verið útbreitt í núverandi mynd frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur lýsti í viðtalinu mögulegum ástæðum þess að Íslendingar séu svona gjarnir að hika eftir fyrsta erindið. 

Dr. Dagrún Jónsdóttir kennir þjóðfræði við Háskóla Íslands.Vísir/Garpur

„Þetta er mjög áhugavert menningarfyrirbæri, þetta hik eftir fyrsta erindið. Næsta erindið fjallar náttúrulega um það hversu gamall viðkomandi er orðinn og það er spurning hvort það sé viðkvæmt mál. Eða hvort fólk sé hreinlega óvisst í afmælisveislunni hve gamalt afmælisbarnið er í raun og veru,“ segir Dagrún.

Á Ströndum, í heimasveit Dagrúnar, eru erindin ekki aðeins eitt eða tvö, heldur fimm. Þar á „hann“ ekki aðeins afmæli í dag eða er ákveðið gamall í dag, heldur bætist við: Hann hefur stækkað í nótt, hann lifir lengi og vel, og hann verður gamall og grár. 

„Ég veit ekki hvort það er af því að við Strandamenn séum svo sérstaklega söngelskir eða bara svona kvikindislegir að vilja láta afmælisbarnið þjást sem lengst,“ segir Dagrún.

Þjóðfræðingurinn er á þeirri skoðun að það sé skemmtilegt að ekki ríki varanlegt samkomulag um fjölda erinda sem sungin skulu hverju sinni. „Þetta er klárlega sérstakt og rosa fyndið af því að maður veltir þessu ekki fyrir sér. Þetta er eitthvað sem gerist í hversdeginum og maður spáir aldrei í. Þannig að ég dáist bara að þeim sem tók eftir þessu og vakti máls á þessu mikilvæga málefni.“


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.