Sport

„Létt kast og þægilegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Hilmar Örn Jónsson öskrar á eftir sleggjunni eftir kast á Evrópumótinu í München í dag þar sem hann vann sig inn í úrslit með frábæru kasti í þriðju og síðustu tilraun.
Hilmar Örn Jónsson öskrar á eftir sleggjunni eftir kast á Evrópumótinu í München í dag þar sem hann vann sig inn í úrslit með frábæru kasti í þriðju og síðustu tilraun. Getty/Patrick Smith

„Ég vissi að ég myndi gera þetta,“ sagði Hilmar Örn Jónsson eftir að hafa kastað sleggju 76,33 metra, eða meira en sem nemur hæð Hallgrímskirkju, þegar mest lá við á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum í dag.

Með kastinu kom Hilmar sér inn í úrslit á EM, fyrstur Íslendinga í sleggjukasti á stórmóti, og varð hann sjöundi inn í úrslitin. Þau fara fram snemma kvölds á morgun.

Í viðtali við RÚV strax eftir árangurinn í München í dag kvaðst Hilmar ekki hafa komið sjálfum sér á óvart, þó að um væri að ræða besta kast hans á árinu.

„Ég vissi að ég myndi gera þetta. Ég var eiginlega búinn að vita það í allan morgun og þurfti bara að framkvæma það. Ég er ánægður en ekki hissa,“ sagði Hilmar í samtali við RÚV. Hann vann sig inn í úrslitin með þriðja og síðasta kasti sínu í morgun.

„Ég byrjaði frekar illa, á ekkert spes kast, en fann samt að það var nóg inni í því. Svo fór ég og talaði aðeins við þjálfarann minn, við fórum yfir málin, og ég þurfti bara að framkvæma betri köst. Ég reyndi það í annarri og þriðju tilraun og sú þriðja fór lengst,“ sagði Hilmar sem kvaðst strax hafa fundið það að þriðja og síðasta kastið hans myndi duga til að komast í úrslit:

„Já, ég held það. Þetta var létt kast og þægilegt, sem eru yfirleitt bestu köstin, og það bara flaug.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.