Innlent

Gælu­dýr séu að drepast eftir ferðir í Herjólfi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Þóra Gísladóttir, formaður dýravinafélagsins í Vestmannaeyjum segir skrítið að þetta sé enn til umræðu árið 2022.
Þóra Gísladóttir, formaður dýravinafélagsins í Vestmannaeyjum segir skrítið að þetta sé enn til umræðu árið 2022. Aðsent, Vísir/Egill Aðalsteinsson

Formaður dýravinafélagsins í Vestmannaeyjum segir dýravini tala fyrir daufum eyrum þegar kemur að auknu öryggi dýra í Herjólfi. Þau hafi undirbúið undirskriftalista sem 1.400 einstaklingar hafi nú þegar undirritað en dæmi séu um það að dýr hafi dáið vegna álags og kvíða eftir veru á bíladekki Herjólfs.

Nú fyrr í dag bárust fregnir af því að bílalyfta Herjólfs hefði kramið tvo bíla í gærkvöldi. Einstaklingur er sagður hafa rekist í takka sem staðsettur sé í brú skipsins með þeim afleiðingum að lyftan hafi farið niður og kramið tvo bíla en enginn farþegi hafi verið staðsettur á bíladekkinu þegar slysið varð.

Þóra Gísladóttir, formaður dýravinafélagsins í Vestmannaeyjum segist vita til þess að hundur hafi verið í bíl á bíladekkinu þegar slysið varð, þó ekki í bílunum sem krömdust.

Hún segir félagið hafa verið stofnað til þess að ná fram breytingum á aðstöðuleysi fyrir dýr og eigendur þeirra í Herjólfi. Eins og er megi ekki fara með dýr upp í bátnum og það megi ekki vera með þau úti. Horft sé fram hjá því ef eigendur vilji vera með dýrunum sínum á bíladekkinu. Bíladekkið sé þó ekki í rýmingaráætlun Herjólfs og ef farþegi sé þar niðri þegar eitthvað komi upp á þurfi hann að koma sér upp í sal sjálfur en þar sem rýmið læsist komist enginn þangað niður.

„Það segir sig sjálft að ef þú ert með dýr eitt niðri á bíladekki að þá kemst þú ekki niður til þess og dýrið þitt getur að sjálfsögðu ekki reddað sér upp.“

„Hann deyr þegar hún er að keyra út úr bátnum“

Lítil dýralæknaþjónusta sé í Vestmannaeyjum en tveir dýralæknar komi með Herjólfi einu sinni í mánuði og þurfa eigendur því að fara með gæludýrin sín með Herjólfi þurfi þau á læknisþjónustu að halda á öðrum tíma. Dýralæknarnir sem komi á staðinn anni ekki eftirspurn eins og staðan sé í dag.

„Við myndum vilja fá þau tvisvar sinnum í mánuði allaveganna, við erum að reyna að fá það í gegn,“ segir Þóra.

Þóra segir að það séu að minnsta kosti þrír kettir sem hafi dáið vegna oföndunar, stressástands og kvíða eftir dvölina á bíldekki Herjólfs en mikill hávaði sé á svæðinu og oft séu þjófavarnarkerfi bíla í fullum gangi.

Þóra segir sögu af ketti erlendrar konu sem búsett sé í Vestmannaeyjum en kötturinn hafi verið fluttur til landsins í lok síðasta árs. Þegar einangrun var lokið þurfti að koma kettinum til Eyja en þann daginn hélt Herjólfur frá Þorlákshöfn. „Kötturinn þurfti að vera einn á bíladekkinu í búri í bílnum í Þorlákshöfn og þegar hún kemur niður er hann mjög illa staddur. Hann deyr þegar hún er að keyra út úr bátnum,“ segir Þóra.

Enginn að tala um að leggja allan Herjólf undir dýrahald

Þóra segir helsta vilja félagsins að fá að vera með dýrin á afmörkuðu svæði, ekki sé verið að tala um að leggja allan Herjólf undir dýrahald. Þau séu að tala um lítið afmarkað svæði þar sem leyfilegt sé að vera með dýr í bandi eða búri til þess að þau upplifi ekki kvíða, stress og vanlíðan á meðan ferðinni stendur.

„Það ætti alveg að vera hægt að búa til eitthvað afmarkað svæði þar sem þú mátt sitja með dýrið þitt, okkur finnst það einhvern veginn svo sjálfsagt bara. Mér finnst svo skrítið að þetta sé enn þá umræða árið 2022,“ segir Þóra.

Félagið hafi skoðað fjórtán ferjur í öðrum löndum og dýrabann hafi ekki verið í neinum þeirra líkt og í Herjólfi. Í þeim öllum megi vera með dýr á ákveðnu svæði eða úti á dekki.

Þóra segir að undirskriftalistinn verði lagður fyrir stjórn og framkvæmdastjóra Herjólfs en undirskriftalistann má sjá hér

Hún segir lítið þurfa til þess að breyta þessari erfiðu stöðu. „Það vantar bara vilja til þess að breyta þessu og kannski smá skilning. Maður er alltaf að vona að Íslendingar séu aðeins að átta sig á því að dýr eru ekki bara einhverjar skynlausar skepnur sem vita ekkert. Dýrin eru bara eins og börnin okkar,“ segir Þóra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×