Umfjöllun og viðtöl: Kór­drengir - FH 2-4 | Lennon með þrennu í hálf­leik og FH fer í undanúrslit

Árni Jóhannsson skrifar
Steven Lennon gerir sig klárann í að skora úr víti. Hann skoraði þrjú mörk og var maður leiksins.
Steven Lennon gerir sig klárann í að skora úr víti. Hann skoraði þrjú mörk og var maður leiksins. Vísir/Diego

Kórdrengir geta gengið stoltir frá borði þrátt fyrir að hafa tapað fyrir FH í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins fyrr í kvöld. Leikar enduðu 2-4 fyrir FH en Kórdrengir sýndu stórveldinu enga virðingu og komust tvisvar yfir í fyrri hálfleik. Gæði Steven Lennon og örlítil heppni gerðu það að verkum að FH-ingar komust þó yfir og sigldu svo leiknum heim.

Leikurinn var ekki mjög gamall þegar fyrsta stóra atvikið gerðist. Kórdrengir komust yfir en vandræðagangur með föst leikatriði virtist hrjá FH-inga. Markið skoraði Gunnlaugur Fannar Guðmundsson á sjöttu mínútu en boltinn datt fyrir hann í vítateignum eftir að FH náði ekki að hreinsa í burt aukaspyrnu. Ef FH-ingar voru stressaðir fyrir leikinn þá getur undirritaður ímyndað sér að taugarnar hafi verið þandar til hins ítrasta á þessum tímapunkti.

Kórdrengir fagna marki í kvöld. Þeir voru óhræddir við FH.Vísir/Diego

FH var mikið meira með boltann en Kórdrengjum leið vel að verjast þeim enda voru gæðin lítil í sendingum á loka þriðjungi vallarins innan gestaliðsins. FH þurfti því örlitla heppni til að jafna metin og sú heppni gerði vart við sig á 26. mínútu. Markvörður heimamanna, Óskar Sigþórsson, varð fyrir því óláni að missa boltann úr höndunum eftir fyrirgjöf. Hann hefði ekki getað misst boltann fyrir verri andstæðing en Steven Lennon stóð alveg ofan í honum og potaði boltanum yfir línuna til að jafna metin. FH gátu andað léttar.

Þó ekki lengi því þremur mínútum síðar voru heimamenn aftur komnir yfir. Axel Freyr Helgason vann boltann á miðjunni og í klafsinu spýttist boltinn á Sverri Pál Hjaltested sem setti í fluggírinn og skildi Eggert Gunnþór Jónsson eftir í rykinu. Sverrir var yfirvegaður og lagði boltann framhjá markverði FH til að koma Kórdrengjum aftur yfir. Enn á ný þöndust taugar FH-inga.

Adam eða öllu heldur Kórdrengir voru ekki lengi í paradís þó því þremur mínútum síðar jöfnuðu FH-ingar. Steven Lennon fékk boltann inn í teig og Gunnlaugar Fannar Guðmundsson náði ekki að valda hann betur en að hann togaði hann niður í vítateignum og réttilega dæmd vítaspyrna. Lennon steig sjálfur á punktinn og gerði engin mistök í að senda boltann neðst í hornið hægra megin.

Steven Lennon að ná í víti fyrir sína menn.Vísir/Diego

FH-ingar gátu síðan leyft sér að anda enn þá léttar 10 mínútum síðar þegar Lennon fullkomnaði þrennu sína. Boltinn skoppaði til hans eftir pínu darraðadans við vítateigslínuna og með einni snertingu klobbaði Lennon varnarmann Kórdrengja og þar með var hann sloppinn einn í gegn. Hann gerði síðan engin mistök í að leggja boltann framhjá markverðinum.

Þar með voru FH-ingar komnir yfir í fyrsta sinn í leiknum og gátu farið nokkuð brattir inn í hálfleik. Þeir höfðu þó lent í brasi með Lengjudeildarliðið og gátu prísað sig sæla að Steven Lennon kann að vera réttur maður á réttum stað.

Seinni hálfleikur var ekki orðinn níu mínútna gamall þegar FH gerði svo út um leikinn. Oliver Heiðarsson átti mjög góðan kafla þar sem hann fékk að nýta hraða sinn í að sprengja framhjá varnarmönnum Kórdrengja. Í eitt skiptið náði hann mjög góðri sendingu fyrir þar sem Kristinn Freyr Sigurðsson stóð einn og óvaldaður á vítapunktinum. Hann fleygði sér fram og stangaði knöttinn í netið og kom FH í 2-4.

Kristinn Freyr gerði út um leikinn fyrir sína menn.Vísir/Diego

Fátt markvert gerðist eftir það en FH hélt boltanum vel og lét boltann ganga á milli manna. Kórdrengir náðu ekki að sprengja upp völlinn á móti FH sem þurfti ekki að koma fram á völlinn. Leikurinn gekk sinn gang þangað til flautað var af og maður fann hvernig andinn yfir áhangendum FH lyftist og gleðin gat tekið völdin.

Af hverju vann FH?

Það var blanda af gæðum Steven Lennon fyrir framan markið og heppni að þakka að þeir hafi unnið leikinn í kvöld. Illa gekk hjá þeim að opna vörn Kórdrengja enda gengu sendingaranar ekki upp þegar á þurfti að halda en Steven Lennon nýtti sér þau tækifæri sem hann fékk upp í hendurnar, kom FH yfir fyrir hálfleik og FH gat síðan haldið boltanum í þeim seinni þegar forskotið var orðið þægilegt.

Hvað gekk illa?

Eins og áður segir þá gekk FH illa að verjast föstum leikatriðum Kórdrengja og sköpuðust oft hættur í vítateig þeirra eftir þau. Þá gekk illa að ljúka sóknum og Kórdrengir gátu leyft sér að verjast með marga menn á sínum vallerhelming.

Bestur á vellinum?

Það verður að gefa Steven Lennon nafnbótina maður leiksins en hann gerði nákvæmlega það sem framherji þarf að gera oft á tíðum. Vera réttur maður á réttum stað og setja boltann yfir línuna.

Hvað næst?

FH er á leið í undanúrslit Mjólkurbikarsins og er það mikill bónus fyrir lið sem hefur ekki gengið vel í deildinni það er örugglega hægt að leyfa sér að gleðjast yfir því og nota jákvæðnina í baráttuna í deildinni. Kórdrengir verða að sleikja sárin og nýta það sem vel var gert í kvöld til að gera atlögu að hærri sætum í deildarkeppninni.

Davíð Smári: „Stoltur en samt svekktur“

Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja, horfir á sína menn úr stúkunni.Vísir/Diego

Þjálfari Kórdrengja, Davíð Smári Lamude, var stoltur af sínum mönnum en samt svekktur í leikslok. Hann gat ekki stýrt sínum mönnum úr varamannaskýlinu en hann var í banni í kvöld.

„Já stoltur en samt svekktur. Mér fannst við gefa þeim þessi mörk, þetta var hugsunarleysi og sofandaháttur hjá okkur. Mér fannst þeir ekki skapa sér neitt sjálfir heldur vorum við að gefa þeim þetta upp í hendurnar. Auðvitað er maður ánægður með strákana að hafa gefið allt í þetta. Menn fylgdu leikskipulagi en ég er svekktur með mörkin.“

Davíð var spurður hvort þessi frammistaða myndi gefa hans mönnum eitthvað í baráttunni sem er framundan. Liðið hans er ekki í mikilli fallbaráttu þó að það sé stutt í botnliðin.

„Við náttúrlega horfum aldrei niður fyrir okkur. Mér fannst þessi leikur í dag þannig að það sást ekki gæðamunur á liðunum í dag. Annað liðið fylgdi leikskipulagi og það sást ákveðið DNA í okkar leik. Þannig að við getum tekið hellingu út úr þessum leik en við erum bara að horfa upp töfluna.“

Að lokum var Davíð spurður að því hvort hans menn hefðu getað gert eitthvað betur.

„Þessi mörk sem við gefum er sofandaháttur. Einbeitingarleysi. Tvö markanna eru mjög svipuð og koma eftir innköst. Það er þessi sofandaháttur, það er það sem við þurfum að bæta.“

Guðmann: „Ef einhvern tímann hefur verið hægt að keyra á FH þá er það núna“

Guðmann Þórisson (lengst til hægri).Vísir/Diego

„Þeir voru náttúrlega með vald á leiknum sem er eðlilegt en mörkin sem þeir fá er svolítið lýsandi fyrir okkur“, sagði Guðmann Þórisson eftir tap hans mann fyrr í kvöld.

„Við erum ekki vakandi og það er smá heppnisstimpill yfir 2-3 mörkum hjá þeim og ef við ætlum að eiga séns þá þurfa svona hlutir að detta fyrir okkur en ekki þá. Í dag datt þetta fyrir þá og þá er þetta helvíti erfitt. Við getum samt verið stoltir, við gáfum þeim alveg leik og þetta var dálítið stöngin út hjá okkur og það hefði verið gaman ef þetta hefði verið í hina áttina.“

Hvað hefðu Kórdrengir getað gert betur?

„Er ekki alltaf hægt að gera betur þegar maður tapar 2-4? Við hefðum getað verið hugrakkari, haldið aðeins betur í boltann og keyrt aðeins á þá. Ef einhvern tímann hefur verið hægt að keyra á FH þá er það núna. Þeir gerðu það sem þeir þurftu að gera.“

Hvað gefur svona frammistaða liðum sem eru jafnvel í örlítilli fallbaráttu?

„Ég myndi nú aldrei segja að við værum í fallbaráttu. Við erum búnir að spila vel í flestum leikjum og okkur finnst við eiga að vera búnir að fá meira út úr leikjunum. Það eina sem hægt er að gera er að halda áfram og gera það sama og vona að úrslitin fari að detta.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira