Sport

Úti­lokar ekki að Þjóð­verjar fái Ólympíu­leikana 2036

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adolf Hitler á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936.
Adolf Hitler á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936. Getty/ullstein bild

Hundrað árum eftir að Adolf Hitler notaði Ólympíuleikana sem áróðurstæki í uppgangi þriðja ríkisins og Nasista í Þýskalandi gætu Ólympíuleikarnir snúið aftur til Þýskalands.

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, sagði að það komi alveg til greina að Ólympíuleikarnir árið 2036 fari fram í Þýskalandi.

Thomas Bach er Þjóðverji og keppti fyrir Vestur-Þýskaland á Ólympíuleikunum í Montréal í Kanada árið 1976.

„Auðvitað koma fram gagnrýnendur en það yrði líka fólk sem myndi gagnrýna hina staðina. Þýskalandi sjálfu hefur samt aldrei verið kennt um þessa leika árið 1936,“ sagði Thomas Bach við Bild.

Hitler notaði þessa Ólympíuleika í Berlín árið 1936 sem áróðurstæki fyrir kynþáttahyggju en Alþjóðaólympíunefndin fékk það í gegn að Gyðingum var leyft að keppa á leikunum eftir að hafa hótað því að sniðganga leikana.

Þýskalandi hefur sótt mörgum sinnum um að halda Ólympíuleikana síðan þá en aðeins fengið að halda sumarleikana einu sinni sem fóru fram í München árið 1972.

Næstu Sumarólympíuleikar fara fram í París í Frakklandi árið 2024, í Los Angeles í Bandaríkjunum árið 2028 og í Brisbane í Ástralíu árið 2032.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×