Sport

Íslenska liðið sekúndubrotum frá öðru sætinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Annie Mist var 26 sekúndubrotum á eftir þeim norsku.
Annie Mist var 26 sekúndubrotum á eftir þeim norsku. mynd/instagram

Íslenska liðið CrossFit Reykjavík, sem Annie Mist Þórisdóttir leiðir, lenti í þriðja sæti í síðari grein dagsins í liðakeppninni á heimsleikunum í crossfit sem fram fer í Wisconsin í Bandaríkjunum.

Síðari grein dagsins í liðakeppninni bar heitið Handstand Machine en í henni átti meðal annars að brenna 30 kalóríur á Echo hjóli, gera armbeygjur í lóðréttri stöðu upp við vegg og róa 500 metra.

Lið Mayhem Freedom frá Bandaríkjunum, sem vann fyrri grein dagsins, bar aftur sigur úr býtum en það kláraði greinina á 14 mínútum og 56,01 sekúndu. Það var býsna knappt milli liðs Osló Navy Blue og Reykjavíkur um annað sætið en þær norsku voru 26 hundraðshlutum úr sekúndu á undan Annie Mist í mark.

Osló kláraði á 15:21,41 en Reykjavík á 15:21,67.

Mayhem Freedom jók forskot sitt á toppnum með sigrinum en liðið er með 552 stig. Oslóarliðið er í öðru sæti með 537 stig, Invictus frá Bandaríkjunum í þriðja með 519 stig, Mayhem Independence, einnig frá Bandaríkjunum, er með 504 stig en Reykjavík er í því fimmta með 480 stig eftir daginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.