Sport

Anna Rakel Pétursdóttir: Þetta gleymist allt þegar maður kemur inn á völlinn

Sverrir Mar Smárason skrifar
Anna Rakel í baráttunni gegn sínu gamla félagi í kvöld.
Anna Rakel í baráttunni gegn sínu gamla félagi í kvöld. Visir/ Diego

Valur vann góðan 3-0 sigur á Þór/KA á heimavelli í Bestu deild kvenna í kvöld. Anna Rakel Pétursdóttir tók þar á móti uppeldisfélagi sínu. Hún var að vonum ánægð með leikinn.

„Þetta var bara fínn leikur. Það var margt gott í okkar leik en líka margt sem við getum gert betur. Við sóttum þrjú stig og það var það sem skipti máli,“ sagði Anna Rakel.

Líkt og áður segir þá er Anna Rakel uppalin hjá Þór/KA og lék hún með þeim í fimm tímabil í efstu deild áður en hún fór út í atvinnumennsku og síðar heim í Val.

„Þetta gleymist allt þegar maður kemur inn á völlinn en svo þegar maður lítur til hliðar og sér vinkonur þá er þetta svona smá skrýtið. Þetta er bara fótbolti,“ sagði Anna Rakel.

Leikurinn í kvöld var annar leikur liðsins eftir langa EM pásu og allt að smella saman að mati Önnu Rakelar.

„Þetta er allt að gerast. Við erum búnar að æfa saman frá því að þær (EM-farar) komu inn í hópinn og það er þétt prógram í ágúst. Við erum bara spenntar fyrir því og það eru allar klárar,“ sagði Anna Rakel.

Valskonur eru á toppnum með fimm stiga forystu sem stendur en Blikar geta minnkað hana niður í tvö stig annað kvöld. Þegar Anna Rakel var spurð að því hvernig Pétri þjálfara gengi að halda þeim á tánum svaraði hún einfaldlega.

„Hann þarf ekkert að halda okkur á tánum sko.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.