Innlent

Eggjunum í Gleði­­vík verði fundinn nýr staður eftir bana­slysið

Atli Ísleifsson skrifar
Listaverkið samanstendur af eftirmyndum 34 fuglseggja sem eru slípaðar í grjót og var vígt árið 2009.
Listaverkið samanstendur af eftirmyndum 34 fuglseggja sem eru slípaðar í grjót og var vígt árið 2009. Vísir/Vilhelm

Ákveðið hefur verið að vinna að flutningi Eggjanna í Gleðivík, listaverki Sigurðar Guðmundssonar, frá hafnarsvæðinu á Djúpavogi og á annan stað við sjávarsíðuna í bænum.

Þetta var ákveðið á fundi Björns Ingimarssonar, sveitarstjóra Múlaþings, og Sigurðar í síðustu viku. Banaslys varð nærri listaverkinu fyrir viku þegar erlendur ferðamaður varð fyrir lyftara og lést. Fjallað hefur verið um að kaðall sem átti að aðskilja gangandi og akandi umferð meðfram ströndinni hafi verið tekinn niður vegna framkvæmda þegar slysið varð.

Í tilkynningu frá skrifstofu Múlaþings segir að þeir Björn og Sigurður harmi það sorglega slys sem hafi orðið við listaverkið og vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt geti gerst aftur.

„Listamaðurinn, ásamt fleirum, hafði verið mótfallinn því að verkið yrði afgirt með kaðli sem aðskildi verkið frá athafnarsvæði hafnarinnar en fyrir hönd sveitarfélagsins hefur verið settur upp slíkur aðskilnaður meðfram verkinu. Óvíst er þó að sá búnaður hefði komið í veg fyrir það slys sem varð þar sem þau sem staðinn sækja eru ekki öll að fara þá gönguleið sem þar er mörkuð og er því það okkar samdóma álit að flutningur listaverksins af svæðinu sé nauðsynlegur.

Eggin í Gleðivík eru eitt vinsælasta útilistaverk landsins og laðar að sér tugþúsundir gesta á ári hverju og er því fengur í að hafa verkið aðgengilegt fyrir ferðamenn og aðra gesti úr listaheiminum og því nauðsynlegt að velja því stað sem tryggir öryggi gesta. Við munum hafa samvinnu um það ferli,“ segir í tilkynningunni.

Listaverkið samanstendur af eftirmyndum 34 fuglseggja sem eru slípaðar í grjót og var vígt árið 2009.


Tengdar fréttir

Öryggis­mál ekki í lagi þegar ferða­maður lést

Öryggismál í Gleðivík á Djúpavogi eru til skoðunar eftir að erlendur ferðamaður varð fyrir lyftara og lést í gær. Samkvæmt heimamönnum hafði kaðall sem átti að aðskilja gangandi og akandi umferð meðfram ströndinni verið tekinn niður vegna framkvæmda og var því ekki til staðar þegar banaslysið átti sér stað í gær.

Banaslys á Djúpavogi

Erlendur ferðamaður á sjötugsaldri lést á Djúpavogi í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.