Erlent

Sakaður um að deila ríkis­leyndar­málum með fjöl­skyldunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lars Findsen var nafngreindur vegna málsins í janúar á þessu ári.
Lars Findsen var nafngreindur vegna málsins í janúar á þessu ári. EPA-EFE/LISELOTTE SABROE

Lars Findsen, fyrrverandi yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar, er sakaður um að hafa deilt ríkisleyndarmálum með nánum ættingjum hans, þar á meðal móður, bróður og kærustu. Sérfræðingur telur málið byggt á veikum grunni

Greint var frá því fyrr á árinu að Findsen væri í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa lekið leynilegum upplýsingum sem taldar eru geta skaðað hagsmuni danska ríkisins.

Findsen var yfirmaður leyniþjónustunnar um sex ára skeið. Í janúar var greint frá því að hann væri grunaður um að hafa lekið leynilegum upplýsingum til fjölmiðla.

Í ítarlegri umfjöllun Berlingske Tidende er nánara ljósi varpað á þær ásakanir sem Findsen stendur frammi fyrir.

Ekki rökstuddur grunur vegna samtals við aldraða móður Findsen

Þar kemur fram að Findsen sé grunaður um að hafa í alls níu skipti rætt ríkisleyndarmál við blaðamenn og fjölskyldumeðlimi.

Í frétt blaðsins kemur fram að dómari í málinu hafi úrskurðað að í sex af þessum níu skiptum sé rökstuddur grunur um að Findsen hafi brotið lög.

Kaupmannahöfn.Getty

Á það við um þau skipti sem Findsen ræddi við tvo blaðamenn hjá tveimur af helstu fjölmiðlum Danmerkur, sem og kærustu og vin Findsen.

Dómarinn taldi hins vegar að ekki væri rökstuddur grunur um að Findsen hafi brotið lög er hann ræddi við aldraða móður sína, og bróður, þvert á það sem lögregla í málinu hélt fram.

Byggt á veikum grunni að mati sérfræðings

Í frétt blaðsins er rætt við sérfræðing í sakamálum sem telur að ásakanir lögreglu sé byggðar á veikum grunni, þar sem þær séu byggðar að töluverðu leyti á einkasamtölum sem Findsen átti við vandamenn sína.

„Ef við notum það viðmið er ég nokkuð viss um að flestir danskir embættismenn hafi á einverjum tímapunkti brotið lög um trúnaðarupplýsingar,“ sagði Lasse Lund Madsen, sérfræðingurinn sem BT ræddi við.

Findsen situr ekki lengur í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×