Erlent

Stærsta planta í heimi á við 20.000 fótboltavelli

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjávagrösin Posidonia australis.
Sjávagrösin Posidonia australis. Rachel Austin/Háskólinn í Vestur-Ástralíu

Vísindamenn frá Ástralíu uppgötvuðu að sjávargrös sem þekja um tvö hundruð ferkílómetra svæði séu í raun ein og sama plantan. Þeir telja að hún hafi vaxið af einu fræi á að minnsta kosti fjögur þúsund og fimm hundruð árum.

Sjávargresjan fannst fyrir tilviljun í Hákarlaflóa, um áttahundruð kílómetra norður af áströlsku borginni Perth. Landsvæðið sem það þekur er svipað að flatarmáli og 20.000 knattspyrnuvellir, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þegar vísindamennirnir rannsökuðu erfðasýni úr sjávargrösunum sem þeir söfnuðu víða í flóanum urðu þeir furðu lostnir að uppgötva að þau voru öll sama plantan. Hún er nú talin sú stærsta á jörðinni.

Elizabeth Sinclair, einn af vísindamönnunum frá Háskólanum í Vestur-Ástralíu, segir plöntuna merkilega harðgera enda vaxi hún á svæðum í flóanum þar sem aðstæður séu afar misjafnar frá einum stað til annars.

„Hún virðist vera sérlega harðger og upplifir breitt bil hita og seltu auk gríðarlegrar birtu sem ætti allt saman að valda miklu álagi á flestar plöntur,“ segir Sinclair.

Sjávargrös vaxa eins og gras á landi, allt að þrjátíu og fimm sentímetra á ári. Út frá því áætla vísindamennirnir að það hafi tekið plöntuna í kringum 4.500 að ná núverandi stærð. Til samanburðar er það um það leyti sem talið er að pýramídarnir í Egyptalandi hafi verið reistir.

Hákarlaflói í Vestur-Ástralíu þar sem sjávargrösin fundust.Angela Rossen/Háskólinn í Vestur-Ástralíu

Tengdar fréttir

Telja sig hafa fundið elsta tré í heimi í Síle

Patagoníugrátviður sem hópur vísindamanna hefur rannsakað í sunnanverðu Síle gæti verið meira en fimm þúsund ára gamall. Sé það rétt er tréð það elsta sem vitað er um á jörðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×