Sport

Heims­meistarar á heima­velli eftir fram­lengdan úr­slita­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimsmeistaratitillinn á loft.
Heimsmeistaratitillinn á loft. Jari Pestelacci/Getty Images

Finnland varð um helgina heimsmeistari í íshokkí eftir eins marks sigur á Kanada í framlengdum leik, lokatölur 4-3 Finnum í vil.

Finnland og Kanada mættust í úrslitaleik HM í íshokkí Tampere í Finnlandi á sunnudag. Leikurinn var æsispennandi en um er að ræða tvær þjóðir með gríðarlega sögu þegar kemur að íshokkí.

Það var hart barist í leiknum.Jari Pestelacci//Getty Images

Spennustigið var hátt og staðan markalaus að loknum fyrsta leikhluta. Dylan Cozens kom Kanada yfir í öðrum leikhluta og reyndist það eina mark þess leikhluta. Í þriðja og síðasta leikhluta leiksins opnuðust flóðgáttirnar.

Mikael Granlund jafnaði metin og kom Finnlandi yfir áður en Joel Armia kom Finnlandi í 3-1. Kanada lét þetta ekki á sig fá og minnkaði Zach Whitecloud muninn þegar lítið var eftir af leiknum.

Það er mikið um árekstra í íshokkí.Jari Pestelacci/Getty Images

Innan við mínútu síðar hafði Kanada jafnað metin, Maxime Comtois með markið og staðan jöfn 3-3. Var hún enn jöfn er tíminn rann út og því þurfti að framlengja.

Þar reyndust Finnar sterkari en Sakari Manninen skoraði eina mark framlengingarinnar og tryggði Finnlandi heimsmeistaratitilinn í íshokkí, lokatölur 4-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×