Innlent

Fjöl­menni í fanga­geymslum lög­reglu á Hverfis­götu í nótt

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Alls komu fimm fíkniefnamál upp og þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.
Alls komu fimm fíkniefnamál upp og þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum. Vísir/Vilhelm

Sjö einstaklingar gistu fangageymslurnar á Hverfisgötu í nótt, sem lögregla segir að teljist nokkuð mikið á virkum degi. Alls komu fimm fíkniefnamál upp og þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.

Í Kópavogi reyndi maður að stinga lögregluna af þegar hún ætlaði að stöðva för hans, en maðurinn hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Maðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum heldur reyndi að komast undan og hóf lögregla þá eftirför. Sú eftirför varð þó ekki löng því maðurinn ók fljótlega á annan bíl. Að því loknu reyndi hann að flýja á tveimur jafnfljótum en lögreglumenn hlupu hann uppi og handtóku. Maðurinn sýndi þó nokkra mótspyrnu, að sögn lögreglu og var hann settur í fangageymslu uns hægt verður að yfirheyra hann.

Annar af gestum fangelsisins var staðinn að verki við innbrot í fyrirtæki í austurborginni og annar var gómaður við húsleit í Kópavogi þar sem verið var að rækta kannabis.

Í miðborginni voru síðan tveir eftirlýstir aðilar handteknir og færðir á lögreglustöð. Reyndi annar þeirra að etja kappi við lögreglumenn í spretthlaupi, en varð að láta í minni pokann fyrir þrautþjálfuðum laganna vörðum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.