Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - ÍBV 0-1 | Óvæntur útisigur Eyjakvenna

Dagur Lárusson skrifar
Eyjakonur unnu óvæntan sigur í kvöld.
Eyjakonur unnu óvæntan sigur í kvöld. Vísir/Bára

Eyjakonur gerðu góða ferð upp á land og unnu óvæntan 0-1 útisigur er liðið heimsótti Breiðablik í Bestu-deild kvenna í fótbolta í kvöld.

Fyrir leikinn var Breiðablik í þriðja sæti deildarinnar með níu stig á meðan ÍBV var í áttunda sætinu með fjögur stig.

Fyrstu mínútu leiksins var það Breiðablik sem var með boltann skapaði nokkur ágætis færi sem reyndu þó ekki mikið á Guðnýju í marki ÍBV. En á fjórtándu mínútu leiksins fékk ÍBV hornspyrnu sem varnarmenn Breiðabliks náðu að verjast en boltinn barst út fyrir teiginn þar sem Júlíana Sveinsdóttir tók við honum ákvað að láta vaða og boltinn sveif yfir Telmu í marki Breiðabliks og í markið. ÍBV komið með forystuna gegn gangi leiksins.

Eftir þetta mark var gríðarlegt skipulag á vörn ÍBV og náði Breiðablik ekki að skapa sér nein alvöru færi út hálfleikinn og var staðan því 0-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum gerði Ásmundur taktíska breytingu með því að færa Áslaugu Mundu frá vinstri bakverði yfir á hægri kantinn þar sem hún spilaði frábærlega síðasta sumar. Í fyrstu virtist þessi breyting ætla að skila sér þar sem Áslaug ógnaði á hægri kantinum en vörn ÍBV náði alltaf að verjast vel.

Breiðablik átti eitt skot í stöngina eftir hornspyrnu en fyrir utan það átti liðið engin alvöru færi til þess að jafna leikinn og því voru lokatölur 0-1 og óvæntur sigur ÍBV því staðreynd.

Af hverju vann ÍBV?

Varnarleikur ÍBV var algjörlega til fyrirmyndar og Breiðablik náði því ekki að skapa sér nein alvöru færi.

Hverjar stóðu upp úr?

Öll varnarlína ÍBV stóð upp úr í leiknum. Jonathan Glenn, þjálfari ÍBV, sagði í viðtali eftir leik að leikplanið var að leyfa Blikum að vera með boltann og verjast vel en til þess þurfti hann að treysta á varnarmenn sína og hann gat það svo sannarlega í kvöld.

Hvað fór illa?

Breiðablik komst oft í góðar stöður til þess að búa til góð færi en þá kom oft léleg sending eða varnarmaður ÍBV varðist vel. Það var eins og það vantaði upp á einhvern neista í sóknarleiknum, svipað og gerðist í leik liðsins gegn Keflavík fyrr í sumar.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur ÍBV er gegn Þór/KA á mánudaginn en næsti leikur Blika er gegn Val á þriðjudaginn.

Jonathan Glenn: Ánægður með hugarfarið og baráttuna

Jonathan Glenn, þjálfari ÍBV.Vísir/Vilhelm

„Ég get bara sagt að ég er svo ánægður með allt og þá aðallega hugarfarið og baráttuna sem mitt lið sýndi í kvöld,” byrjaði Jonathan Glenn, þjálfari ÍBV, að segja eftir leik.

„Sigurviljinn sem við sýndum var magnaður. Við vissum auðvitað að Breiðablik er lið sem vill halda boltanum og heldur honum vel þannig við vorum tilbúin að leyfa þeim að vera með boltann og verjast vel sem við gerðum,” hélt Jonathan áfram að segja.

„Við vissum það fyrir leikinn að það er nógu erfitt að koma hingað á Kópavogsvöll, þeirra heimavöll, og Breiðablik er eitt besta liðið í deildinni í að halda boltanum og þess vegna leyfðum við þeim það.”

Jonathan sagði að að það var mikilvægt að skora snemma í leiknum.

„Mjög mikilvægt að skora snemma í svona leikjum og þvílíkt mark hjá Júlíönu, við vitum að hún getur gert þetta og þess vegna er ég mjög ánægður,” endaði Jonathan Glenn á að segja.

Ásmundur Arnarsson: Enginn jákvæður punktur

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Blika.Vyacheslav Madiyevskyy/ Ukrinform/Barcroft Media via Getty Images

„Þetta eru auðvitað hrikaleg vonbrigði fyrst og fremst og ég er mjög ósáttur,” byrjaði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, að segja eftir leik.

„Það sem vantaði í dag var einfaldlega að klára færin okkar betur, við sköpuðum mikið af góðum færum sérstaklega í fyrri hálfleik en náðum ekki að klára þau. Kannski ekki ósvipuð uppskrift og af leiknum okkar gegn Keflavík fyrr í sumar þar sem við fáum á okkur mark í fyrri hálfleik frekar ódýrt mark og það kemur smá skjálfti í okkur,” hélt Ásmundur áfram.

„Mér fannst samt, þrátt fyrir þennan skjálfta, að við náðum að skapa einhver færi í seinni hálfleiknum en það vantaði samt alltaf herslumuninn.”

„Síðan þróaðist leikurinn þannig að við fórum að setja fleiri og fleiri fram á við og úr varð of mikil þrengsli og skjálfti sem að var ekki að hjálpa okkur neitt.”

Ásmundur vildi ekki nefna neinn jákvæðan punkt eftir leikinn.

„Nei ég á erfitt með að finna einhvern jákvæðan punkt eftir 0-1 tap á heimavelli,” endaði Ásmundur Arnarsson á að segja eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.