Sport

Banna kampavínstappana eftir slysið á verðlaunapallinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Biniam Girmay grípur um augað sitt eftir að fengið tappann úr kampavínsflöskunni í augað.
Biniam Girmay grípur um augað sitt eftir að fengið tappann úr kampavínsflöskunni í augað. AP/Massimo Paolone

Hinn óheppni hjólreiðakappi Biniam Girmay varð að hætta keppi í Ítalíuhjólreiðunum eftir kampavínsslys á verðlaunapallinum og nú hafa skipuleggjendur Giro d’Italia bannað kampavínstappana.

Girmay ætlaði að fagna sögulegum sigri, þeim fyrsta hjá lituðum Afríkumanni á mótaröðinni, en það endaði mjög illa fyrir hann.

Biniam Girmay upplifði reyndar ótrúlegan sólarhring. Fyrst villtist hann á leið daginn áður en bætti svo úr því með því að vinna sérleið tíu. Þegar hann ætlaði að opna kampavínsflöskuna á verðlaunapallinum þá skaust tappinn upp í auga hans eins og sjá má hér fyrir neðan.

Girmay fór upp á sjúkrahús og varð síðan að hætta keppni.

Það er hefð fyrir því að opna kampavínsflöskur á verðlaunapalli á mótaröðinni og flöskurnar verða enn í boði eins og var raunin þegar Alberto Dainese fagnaði sigri á elleftu sérleið.

Hjólreiðakapparnir þurfa hins vegar ekki lengur að hafa áhyggjur af stórhættulegum töppum. Þeir eru nú bannaðir.

Mótshaldarar telja tappana ekki áhættunnar virði og hjólreiðamennirnir ættu að ná sömu niðurstöðu með að hrista tappalausu flöskuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×