Innlent

Engin kósýteppi í boði í Hús­­stjórnar­­skólanum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hér í Hússtjórnarskólanum verður nóg um værðarvoðir næstu misseri.
Hér í Hússtjórnarskólanum verður nóg um værðarvoðir næstu misseri. vísir/sigurjón

Skólameistari Hússtjórnarskólans til 24 ára útskrifaði í dag nemendur sína í síðasta skipti. Við kíktum í skólann með reynsluboltanum og eftirmanni hennar, sem lofar að halda í hefðir lærimóður sinnar.

Í átta­tíu ár hefur Hús­stjórnar­skólinn, sem áður hét Hús­mæðra­skólinn, verið starf­ræktur á Sól­valla­götu í gamla Vestur­bænum.

Síðustu 24 ár hefur honum verið stýrt traustum höndum Margrétar Dórótheu Sig­fús­dóttur sem lýkur nú starfi sínu 75 ára að aldri.

Í Kvöld­fréttum Stöðvar 2 kíktum við í Hús­stjórnar­skólann og spjölluðum við bæði frá­farandi og verðandi skóla­meistarana:

Margréti finnst nokkuð skrýtið að láta af störfum eftir öll þessi ár:

„Þetta er svaka­lega skrýtið. Ó­gur­lega skrýtið. Ég hugsaði í morgun hérna við að slíta skólanum 48 sinnum. Mér finnst það mjög skrýtið,“ segir Margrét.

En arf­takinn er vel að starfinu kominn.

Það er hún Marta María Arnars­dóttir, sem er lands­mönnum vel kunn eftir að hafa stýrt Co­vid-sýna­tökunum við Suður­lands­braut í heims­far­aldrinum.

Þær stöllur Marta og Margrét við hinn svokallaða prinsessustiga í skólabyggingunni.vísir/ívar

„Það er búið að vera ansi skemmti­legt á Suður­lands­brautinni. Mikið at og mikið um að vera. Ég á alveg klár­lega eftir að sakna þess en ég tek fagnandi á móti þessu nýja starfi. Það verður mjög spennandi,“ segir Marta María.

En ætlar nýi skóla­meistarinn sér að breyta til eða halda í hefðir Margrétar?

„Ég er búin að fylgjast vel með Margréti; hvernig hún lagar kaffið og sýður grautinn og svona. Það verður að vera eins,“ segir Marta María.

Og Margrét grípur inn í: „Það náttúru­lega koma alltaf breytingar á ein­hverju ungu fólki og nýju fólki. En ég er viss um að hún fari ekkert í ein­hverjar rót­tækar og stór­kost­lega svaka­legar breytingar að snúa öllu við fyrsta árið.“

Þú yrðir ekki sátt með það?

„Mér kemur þetta ekkert við. Auð­vitað hugsa ég mér... æ ég get ekki í­myndað mér það,“ segir Margrét.

Engar enskuslettur hér

Skólinn tekur 24 nem­endur hverja önn og í húsinu er heima­vist fyrir 15 þeirra.

En hvað er það sem kennt er í Hús­stjórnar­skólanum?

Það telur Margrét upp í einni runu: „Í fyrsta lagi mat­reiðsla, ræsting, næringar­fræði, vöru­fræði, prjón, hekl, vefnaður, fata­saumur, út­saumur. Þá er það upp­talið.“

Í skólanum er svo ein­stök vef­stofu þar sem unnar eru alls kyns vefnaðar­vörur en alls ekki nein kósýteppi eins og Margrét hamrar á.

„Þetta eru værðar­voðir,“ segir hún á­kveðin. „Hér eru sko engin kósýteppi.“

Já, í Hús­stjórnar­skólanum hefur Margrét haldið í góða ís­lensku og vonar að arf­taki sinn geri það líka. Því má búast við að fleiri værðar­voðir verði ofnar þar á næstu árum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.