Fótbolti

Dortmund búið að finna arftaka Haaland

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karim Adeyemi mun leika með Borussia Dortmund til ársins 2027 hið minnsta.
Karim Adeyemi mun leika með Borussia Dortmund til ársins 2027 hið minnsta. Alexandre Simoes/Borussia Dortmund via Getty Images

Þýska liðið Borussia Dortmund var ekki lengi að kynna til leiks arftaka Erlings Haaland eftir að tilkynnt var um að sá norski myndi yfirgefa félagið í sumar. Karim Adeyemi gengur til liðs við Dortmund eftir tímabilið.

Fyrr í dag var það endanlega gert opinbert að Erling Braut Haaland mun leika með Englandsmeisturum Manchester City frá og með næsta tímabili. City greiðir um sextíu milljónir evra fyrir þennan 21 árs stjörnuframherja.

Karim Adeyemi gengur til liðs við Dortmund frá austurríska félaginu Red Bull Salzburg og skrifar undir samning sem gildir til ársins 2027. Dortmund greindi frá þessu aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Englandsmeistararnir staðfestu komu Haalands.

Adeyemi er tvítugur Þjóðverji sem hefur skorað 33 mörk og lagt upp önnur 23 fyrir liðsfélaga sína í 92 leikjum fyrir Salzburg. Leikmaðurinn hefur skorað 17 mörk á yfirstandandi tímabili. Þá á hann einnig að baki þrjá leiki fyrir þýska landsliðið þar sem hann hefur nú þegar skorað eitt mark.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.