Sport

Tvö þúsund kílómetra flótti endaði með úkraínsku HM gulli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Yaroslava Mahuchikh sést hér með gullið sitt eftir að hafa unnið hástökkið á HM innanhúss í Belgrad í Serbíu um helgina.
Yaroslava Mahuchikh sést hér með gullið sitt eftir að hafa unnið hástökkið á HM innanhúss í Belgrad í Serbíu um helgina. AP/Darko Vojinovic

Yaroslava Mahuchikh var án efa ein af eftirminnilegustu heimsmeisturum helgarinnar á HM innanhúss í frjálsum íþróttum í Belgrad.

Mahuchikh tryggði sér heimsmeistaratitilinn í hástökki kvenna með því að stökkva 2,02 metra og gera betur en Ástralinn Eleanor Patterson (2,00 metrar) og Kasakinn Nadezhda Dubovitskaya (1,98 metrar).

Þessi tvítuga úkraínska frjálsíþróttakona er nefnilega búin að upplifa afar erfiða tíma síðustu vikur eftir að hún þurfti að flýja heimili sitt í Dnipro eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Fyrir þremur vikum þá flúði hún heimaborga sína og ferðaðist um tvö þúsund kílómetra leið í bíl til Belgrad í Serbíu. Ferðalagið tók þrjá daga en hún þurfti meðal annars að fela sig í kjallara á leiðinni.

Hún ferðaðist alla þessa leið með það markmið að ná því að keppa á heimsmeistaramótinu. Ekki beint draumaundirbúningur fyrir íþróttamann en henni tókst engu að síður að stökkva hærra en allir í hástökkskeppninni.

Hún var ekki að ná góðum árangri í fyrsta sinn því hún varð önnur á HM 2019 og í þriðja sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Úkraína eignaðist tvo verðlaunahafi á heimsmeistaramótinu í ár því Maryna Bekh-Romanchuk vann silfurverðlaun í þrístökkinu þar sem Yulimar Rojas frá Venesúela setti heimsmet og vann gull.

Auðvitað hjálpaði það Yaroslavu að þurfa ekki að keppa við hina rússnesku Mariya Lasitskene. Rússum var bannað að taka þátt í heimsmeistaramótinu vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Lasitskene var ríkjandi heims- og Ólympíumeistari.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.