Innlent

Vafi vegna nýrra kosningalaga ástæða þess að málin voru felld niður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis, Guðrún Sighvatsdóttir og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir til vinstri, Ingi Tryggvason fyrir miðju, Katrín Pálsdóttir og Bragi Rúnar Axelsson til hægri.
Yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis, Guðrún Sighvatsdóttir og Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir til vinstri, Ingi Tryggvason fyrir miðju, Katrín Pálsdóttir og Bragi Rúnar Axelsson til hægri.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi telur að ný kosningalög sem tóku gildi um áramótin kveði ekki á með beinum hætti um skyldu til að innsigla kjörgögn að lokinni talningu í kosningum. Því sé vafi á því hvort að meint brot starfsmanna yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis í síðustu Alþingiskosningum varði refsingu. Sá vafi var túlkaður starfsmönnunum í hag.

Greint var frá því í dag að lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur fellt niður mál á hendur starfsmönnum yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis í kjölfar Alþingiskosninganna í september.

Talning í kjördæminu gekk ekki áfallalaust fyrir sig og komu upp ábendingar þess efnis að lög hefðu verið brotin meðal annars vegna þess að atkvæði hefðu verið skilin eftir óinnsigluð að lokinni talningu. Lögreglustjórinn á Vesturlandi sektaði alla starfsmenn yfirkjörstjórnar í október. Starfsmennirnir neituðu að greiða sektina.

Nýju kosningalögin ekki skýr um skyldu til að innsigla kjörgögn að mati lögreglustjórans

Starfsmennirnir hafa nú fengið bréf frá lögreglustjóranum á Vesturlandi þar sem þeim er tilkynnt að mál þeirra, þar sem þeim var gefið að sök að hafa ekki sett kjörseðla undir innsigli, þegar yfirkjörstjórn og starfsmenn á hennar vegum yfirgáfu talningstað, hafi verið látin niður falla.

Salur Hótels Borgarness, þar sem talningin fór fram.Vísir/Vilhelm

Í umræddu bréfi, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir lögreglustjóri að þann 1. janúar 2022 hafi ný kosningalög tekið gildi sem að mati lögreglu séu ekki nægilega skýr um skyldu til innsiglunar kjörgagna líkt og henni þótti um þágildandi kosningalög. Því telur lögreglustjóri vafa um refsinæmi ætlaðs brots yfirkjörstjórnarmanna eftir gildistöku nýju kosningalaganna.

Að mati lögreglustjóra er ekki fjallað með jafn skýrum hætti um skyldu til innsiglunar kjörgagna líkt og gert var í þágildandi kosningalögum nr. 24/2000. Ekki er með beinum hætti fjallað um skyldu til innsiglunar kjörgagna að lokinni talningu í gildandi kosningalögum nr. 112/2021.

Umrædd kosningalög voru samþykkt af Alþingi á síðasta ári og tóku þau sem fyrr segir gildi um áramótin. Þau komu í stað kosningalaga frá árinu 2000, sem kosið var eftir í Alþingiskosningunum í haust.

Í lögunum frá árinu 2000 er skýrt kveðið á um skyldu yfirkjörstjórnar til að innsigla alla notaða kjörseðla að lokinni talningu, sbr. 104. grein þeirra laga:


104. grein þágildandi kosningalaga frá árinu 2000

Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1) eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem [ráðuneytið] 1) leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim.

Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.

Yfirkjörstjórn skal búa um allar kjörskrár í innsigluðum umbúðum og senda [ráðuneytinu] 1) sem geymir þær í eitt ár, en að því búnu skal eyða þeim


Í nýju kosningalögunum er ekki minnst á að innsigla þurfi kjörgögn að lokinni talningu, en tekið er fram að „ráðherra setji reglugerð, að fenginni tillögu landskjörstjórnar, m.a. um framkvæmd talningar við almennar kosningar, meðferð ágreiningsseðla, meðhöndlun kjörgagna og kjörskráa og um frágang að lokinni talningu, þ.m.t. um eyðingu kjörseðla og annarra gagna.“

Vafinn túlkaður starfsmönnum yfirkjörstjórnar í hag

Í bréfi lögreglustjórans kemur fram að málsgögn hafi verið yfirfarin með hliðsjón af því hvort ætlað brot hafi varðað við refsiákvæði hinna nýrru kosningalaga. Í ljósi þess að vafi sé á refsinæmi hins meinta brots yfirkjörstjórnarmanna með gildistöku nýrra kosningalaga verði að túlka þann vafa þeim í hag.

Lögreglan á Borgarnesi rannsakaði málið.Vísir/Vilhelm

Telur lögreglustjóri að með hliðsjón af rannsóknargögnum verki ekki talið að það sem fram hafi komið við rannsókn málsins sé nægjanlegt eða líklegt til sakfellis.

Hafa málin því verið felld niður.

Á annan tug kæra barst vegna þingkosninganna í haust og hóf undirbúningskjörbréfanefnd rannsókn á talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi í kjölfarið. Alþingi staðfesti svo í lok nóvember kjörbréf allra þeirra 63 þingmanna sem Landskjörstjórn gaf út að lokinni endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Alþingi samþykkti tillögu meirihluta kjörbréfanefndar þess efnis og var því ekki boðað til uppkosningar.

Ekki náðist í Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjórann á Vesturlandi við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Mál yfir­kjör­stjórnar Norð­vestur­kjör­dæmis fellt niður

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur fellt niður mál á hendur starfsmönnum yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis í kjölfar Alþingiskosninganna í september. Að minnsta kosti tveir starfsmenn yfirkjörstjórnar hafa fengið send bréf þess efnis. Þeirra á meðal Ingi Tryggvason, sem gegndi formannsstöðu, og Katrín Pálsdóttir sem sæti átti í yfirkjörstjórn.

Enginn í yfir­kjör­stjórn greitt sektina og styttist í á­kærur

Enginn þeirra fimm sem sátu í yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis í síðustu þingkosningum hefur greitt sekt sem þeim var gert að greiða til að ljúka máli sem varðar talningu atkvæða í kjördæminu. Fresturinn til að ljúka málinu er löngu liðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×