Sport

Ætlar að gefa úkraínskum börnum verðlaunafé sitt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andy Murray ætlar að gefa úkraínskum börnum verðlaunafé sitt.
Andy Murray ætlar að gefa úkraínskum börnum verðlaunafé sitt. Francois Nel/Getty Images

Tenniskappinn Andy Murray hefur lofað því að gefa úkraínskum börnum sem hafa orðið fyrir áhrifum af innrás Rússa í Úkraínu verðlaunafé sitt það sem eftir lifir árs.

Þessi fyrrum efsti maður heimslistans í tennis vinnur nú að því í samstarfi við UNICEF að koma heilbrigðisvarningi og öðru nytsamlegu til Úkraínu.

Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir tæplega tveimur vikum og nú þegar hafa meira en tvær milljónir manna þurft að yfirgefa heimili sín í landinu.

„Meira en sjö og hálf milljón barna eru í hættu á meðan að ástandið versnar í Úkraínu,“ sagði Murray.

„Það er nauðsynlegt að þessi börn fái áfram menntun. Þannig að UNICEF er að vinna í því að fá kennslu fyrir þau börn sem hafa þurft að flýja heimili sín. Þau eru einnig að styðja við uppbyggingu skóla sem hafa orðið fyrir tjóni eða skemmst og eru að koma nýjum búnaði og húsgögnum á þá staði.“

Þessi 34 ára tenniskappi ætlar því að gefa allt það verðlaunafé sem hann vinnur sér inn héðan í frá og það sem eftir lifir árs til að hjálpa börnunum í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×