Innlent

„Leghafi“ ágætt orð en Katrín ætlar ekki að hætta að segja „kona“

Snorri Másson skrifar

Tímarnir breytast og mennirnir — eða einstaklingarnir — með.

Í nafni jafnréttis allra kynja er fjöldi fólks farinn að breyta tungumáli sínu með tiltölulega róttækum hætti. Breytingarnar ná hvort tveggja til málfræðinnar og orðaforðans.

Dæmi um þetta er að tala iðulega um „þau“ í hlutlausri almennri merkingu í stað þess að segja „þeir.“ Þá velja sumir að tala um „leghafa“ í stað „kvenna“ - eða „barnshafandi einstaklinga“ í stað „verðandi mæðra.“

Fjallað er um ýmsar hliðar þessa máls í myndbrotinu hér að ofan og sýndur fjöldi dæma um málbreytingarnar.

Tungumálið á að taka utan um „öll“

Forsætisráðherra hefur tileinkað sér sumar þessara breytinga: „Ég hef reynt að tileinka mér að nota reglulega til skiptis karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn, þannig að maður leggi áherslu á að tungumálið taki utan um öll,“ segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við fréttastofu.

Þessarar tilhneigingar verður mjög vart í fréttum Ríkisútvarpsins. Málfarsráðunauturinn þar kveðst ekki hafa gefið fyrirmæli um kynhlutlaust málfar - heldur sé orðið einfaldlega frjálst.

Í hlaðvarpinu Þú veist betur á RÚV má heyra þetta: „Sum sem fara á túr upplifa gríðarlega vanlíðan, fyrir aðra er þetta ekkert mál. Og það eru ekki bara konur sem fara á túr, heldur fólk með leg. Allt fólk með leg.“

Fólk með leg nær þannig einnig utan um karla sem fæðast í kvenmannslíkama, en eru ekki konur. 

„Það var hér til umræðu um daginn frumvarp um nýja skimunarskrá, þar sem því var einmitt velt upp að þar gætu fleiri þurft að fara í skimun við vanda í legi en bara konur,“ segir Katrín. 

Þannig að þar sé réttast að nota orð eins og legberi, leghafi eða leghafandi einstaklingur eða eitthvað í þá veru?

„Ja, þessi orð eru ágæt með, en ég mun ekki hætta að nota orðið kona. Af því að ég ætla að halda mig við það að vera það sjálf,“ segir Katrín.

Ófá dæmi má finna við einfalda leit á Twitter, þar sem talað er um leghafa í stað kvenna.


Tengdar fréttir

Karlar líklegri til að neita að nota rétt fornöfn um kynsegin fólk

Töluvert hærra hlutfall karla en kvenna kveðst myndu neita að nota persónufornafnið hán um manneskju sem bæði þá um það. Konur eru líklegri en karlar til að verða við slíkri ósk, ef marka má niðurstöður rannsóknar Lilju Guðmundsdóttur, nýútskrifaðs félagsfræðings.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.