Erlent

„Rúss­land verður nú alþjóðlegt úr­hrak í ára­tugi“

Jakob Bjarnar skrifar
Prófessor Nina L. Khrus­hcheva, barnabarn Nikita Khrushchev, hefur ritað afar athyglisverða grein þar sem hún reynir gera sér í hugarlund hvað bærist í kolli Pútíns og hverjar fyrirætlanir hans eru. Þar er ófögur mynd upp dregin.
Prófessor Nina L. Khrus­hcheva, barnabarn Nikita Khrushchev, hefur ritað afar athyglisverða grein þar sem hún reynir gera sér í hugarlund hvað bærist í kolli Pútíns og hverjar fyrirætlanir hans eru. Þar er ófögur mynd upp dregin.

„Stalínismi dó ekki fyrr en hann gerði það. Það sama á við um Maóisma. Á það líka við um Pútinisma?“

Þannig lýkur grein sem Nina L. Khrus­hcheva, prófessor við Julien J. Studley í alþjóðasamskiptum við The New School í New York, ritar og birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinin birtist upphaflega á Project Syndicate. Nina er langafabarn Nikita Khrushchev sem var leiðtogi Sovétríkjanna 1953-1964 og má því ætla að hún hafi verulega innsýn í hugarfar rússneskra valdamanna og þekki vel rússneska samtímasögu.

Fyrirsögn greinarinnar er „Hvað er Pútin að hugsa?“ en þar er rakið að hernaður Rússa gegn Úkraínu bjóði öllum rökum birginn, jafnvel hans eigin forhertu einræðislegu útleggingum. Með tilefnislausri árás skipi hann sér í flokk með harðstjórum sem svo aka seglum, ekki síst Stalín sem taldi að til að viðhalda valdi þyrfti stöðuga útþenslu á því.

„Þessi rök­semda­færsla varð til þess að Stalín framdi skelfi­leg grimmd­ar­verk gegn eig­in þjóð og olli þar á meðal hung­urs­neyð sem svelti millj­ón­ir Úkraínu­manna til bana.“

Þá rifjar Nina upp að annar fjöldamorðingi 20. aldar, Maó Zdong, hafi lýst því yfir að póli­tískt vald yxi úr byssu­hlaupi – eða að því er virt­ist vera úr kjarn­orku­vopn­um. „Maó krafðist þess að langafi minn, leiðtogi Sov­ét­ríkj­anna, Nikita Khrus­hchev, af­henti Kín­verj­um kjarn­orku­vopn til þess að hann gæti á áhrifa­rík­an hátt haldið and­stæðing­um sín­um, er­lend­um og inn­lend­um, í gísl­ingu.“

Þetta er eina útskýringin, því ekki haldi að Zelenskí forseti Úkraínu sé nasisti; hann sé gyðingur. En hver eru markmið Pútíns, spyr Nina.

Nina L. Khrus­hcheva prófessor ritar afar athyglisverða grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.skjáskot

„Vill hann refsa NATO með því að eyðileggja hernaðar­innviði Úkraínu? Von­ast hann til að koma á fót lepp­stjórn, hvort sem er með því að skipta Zelenskí út eða með því að breyta hon­um í úkraínsk­an Phil­ippe Pétain, sam­starfs­leiðtoga Frakk­lands í síðari heims­styrj­öld­inni?“

Svarið við báðum spurningum gæti að mati prófessorsins verið já en raunveruleg ástæða gæti verið uggvænlegri. Að hann vilji endurheimta valdastöðu Rússlands.

Pútín komið Rússlandi út í horn

„Pútín dreym­ir um leiðtoga­fund í anda Jalta og Pots­dam, þar sem hann og koll­eg­ar hans, Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og Xi Jin­ping for­seti Kína, skipta heim­in­um sín á milli. Þar myndi hann og nýr bandamaður hans, Xi, vænt­an­lega taka hönd­um sam­an um að draga úr yf­ir­ráðum Vest­ur­landa – og víkka veru­lega út áhrif Rúss­lands.“

Hann vilji endurreisa rétt­trúnaðar­kirkju­ríkið Rus – grund­völl rúss­neskr­ar siðmenn­ing­ar – og byggja upp „Rúss­neska sam­bandið“ sem næði yfir Rúss­land, Úkraínu, Hvíta-Rúss­land og rúss­nesk menn­ing­ar­svæði Kasakst­an, segir Nína. En stuðningur Kína er ekki eindreginn eins og Pútín hefur líkast til gert ráð fyrir.

„Inn­rás­in í Úkraínu hef­ur einnig myndað gjá milli fyrr­ver­andi banda­manna og Pútíns. Sum­ir af trú­föst­ustu læri­svein­um hans á Vest­ur­lönd­um, frá for­seta Tékk­lands, Miloš Zem­an, til Vikt­ors Or­báns, for­sæt­is­ráðherra Ung­verja­lands, hafa for­dæmt aðgerðir hans. En, kannski enn mik­il­væg­ara, þá hafa óráðsræður Pútíns hliðsett rúss­nesku þjóðina. Með villi­manns­legri árás á Úkraínu hef­ur hann fórnað ára­tuga langri fé­lags­legri og efna­hags­legri þróun og eyðilagt von­ir Rússa um betri framtíð. Rúss­land verður nú alþjóðlegt úr­hrak í ára­tugi.“

Rússneska þjóðin ekki að baki Pútíns

Prófessorinn segir jafnframt frá því í grein sinni að hún hafi talað við vin sinn í Kænugarði sem var í felum í sprengjubyrgjum líkt og í seinni heimstyrjöldinni. Og spurði á móti hvað væri að gerast: „Seg þú mér hvað er að ger­ast. Það eruð þið Rúss­arn­ir sem hafið haldið áfram að kjósa þenn­an fas­ista.“

Nina L. Khrus­hcheva segir staðhæfinguna skiljanlega en ekki rétta. Rússar hafi vissulega kosið Pútín í fyrstu en síðan gefist upp fyrir valdi hans, atkvæði þeirra skipti ekki máli.

„Sömu­leiðis er full­yrðing­in um að 73% Rússa styðji aðgerðir Pútíns í Úkraínu hreinn áróður. Þúsund­ir safn­ast sam­an í rúss­nesk­um borg­um og segja „nei við stríði“, þrátt fyr­ir fang­els­an­ir og lög­reglu­of­beldi. Í þetta sinn virðast Rúss­ar ekki lík­leg­ir til að gef­ast upp án and­mæla. Á næstu dög­um og vik­um get­ur heim­ur­inn bú­ist við mörg­um vís­bend­ing­um til viðbót­ar um að Rúss­ar vilji ekki þetta stríð,“ segir í grein Ninu L. Khrus­hcheva.


Tengdar fréttir

Vaktin: Tugir borgara sagðir hafa fallið í klasasprengjuárás

Sókn rússnesks herliðs að úkraínsku höfuðborginni Kænugarði hélt áfram í nótt og í morgun, þó hún hafi verið umfangsminni en áður. Borgin virðist þó umkringd af rússneskum hermönnum en Rússar hafa sagt að almennir borgarar megi flýja og verði óáreittir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×