Sport

Valieva glansaði þrátt fyrir pressuna og langefst eftir skylduæfingarnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kamila Valieva lét pressuna ekki á sig fá og átti góðan dag á skautasvellinu.
Kamila Valieva lét pressuna ekki á sig fá og átti góðan dag á skautasvellinu. getty/Matthew Stockman

Kamila Valieva, einn umtalaðasti íþróttamaður heims um þessar mundir, er efst eftir skylduæfingarnar í einstaklingskeppni í listdansi á skautum á Vetrarólympíuleikunum í Peking.

Sem kunnugt er féll Valieva á lyfjaprófi en fékk leyfi til að keppa í einstaklingskeppninni í gær. Ungur aldur hennar var þar tekinn með í reikninginn en sú rússneska er aðeins fimmtán ára. Hjartalyfið trimetzadin greindist í sýni hennar sem var tekið um jólin. Hún segir að lyfið hafi ratað í líkama hennar þegar hún drakk úr glasi afa síns.

Þrátt fyrir að ákvörðunin að aflétta banni Valievu hafi verið umdeild fékk hún fínan stuðning frá áhorfendum í dag. Valieva hrasaði aðeins þegar hún reyndi við þrefaldan öxul í byrjun æfinganna en annað gekk vel hjá henni. Valievu var greinilega létt eftir æfingarnar og felldi tár á svellinu.

Valieva fékk 82,16 í einkunn fyrir æfingarnar sínar í dag. Landa hennar, Anna Shcherbakova, varð önnur með 80,20 í einkunn. Kaori Sakamoto frá Japan kom á óvart með því að lenda í 3. sæti með einkunn upp á 79,84.

Keppni með frjálsri aðferð fer fram á fimmtudaginn. Samanlagður árangur sker úr um það hver vinnur einstaklingskeppnina.

Ef Valieva stendur uppi sem sigurvegari á fimmtudaginn, sem flestir búast við, eða kemst á verðlaunapall verður engin verðlaunaafhending því mál hennar er enn til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×